Viðskipti innlent

Erna Gísladóttir hlaut FKA viðurkenninguna 2018

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, Erna Gísladóttir og HIldur Petersen voru heiðraðar á fögnuði Félags kvenna í atvinnulífinu
Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, Erna Gísladóttir og HIldur Petersen voru heiðraðar á fögnuði Félags kvenna í atvinnulífinu FKA
Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, heiðraði í dag Ernu Gísladóttur, Hildi Petersen og Söndru Mjöll Jónsdóttur Buch fyrir eftirtektarverð störf þeirra í atvinnulífinu á árlegri hátíð sinni, sem haldin var í Gamla bíói.

Erna Gísladóttir, forstjóri bílaumboðsins BL ehf., hlaut FKA viðurkenninguna 2018. Erna er einn af eigendum þess BL, stjórnarformaður Sjóvár-Almennra trygginga hf. og situr í stjórn Haga hf.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

„Erna hefur á undanförnum árum reist við gömlu bílaumboðin B&L og Ingvar Helgason í sameinuðu fyrirtæki BL. Hún hefur gert það með þeim hætti að BL er nú stærsta bifreiðaumboðið á Íslandi og hefur aukið markaðshlutdeild þess svo eftir er tekið.“

Hildur Petersen, framkvæmdastjóri Vistvænnar framtíðar, fékk Þakkarviðurkenningu FKA. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Hildur hafi kornung tekið við rekstri fjölskyldufyrirtækisins Hans Petersen og var um árabil ein fárra kvenna á Íslandi sem gegndi forstjórastarfi í stóru fyrirtæki.

„Hildur var áberandi í starfi sínu og tók að auki að sér ábyrgðarmikil hlutverk í íslensku viðskiptalífi og hefur því verið fyrirmynd margra sem á eftir henni komu,“ segir í mati dómnefndar.

Þá hlaut Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, framkvæmdastjóri Platome Líftækni, Hvatningarviðurkenningu FKA 2018.

„Sandra hefur ásamt samstarfsfólki sínu byggt upp hátæknifyrirtæki, sem ef vel tekst til, stuðlar að framförum í læknavísindum. Fyrirtækið starfar á sviði sem er áhugavert og hefur raunhæfa vaxtarmöguleika. Einkar áhugavert er að í vörum fyrirtækisins eru notaðar útrunnar blóðflögueiningar frá blóðbönkum sem annars yrði fargað,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

Svartur var áberandi meðal gesta í Gamla bíói.FKA
Þetta er í nítjánda sinn sem hátíðin er haldin en í ávarpi Rakelar Sveinsdóttur, formanni félagsins, kom fram að sjaldan hefði verið jafn áríðandi og nú, að draga fram fyrirmyndir í atvinnulífinu. Ekki aðeins væri #metoo byltingin að kalla á miklar breytingar, heldur lifði hið ósýnilega glerþak enn góðu lífi sem ekki einu sinni lög Alþingis væru að ráða við.

„Samt er það svo að ekki einu sinni kynjakvótalögin sem tóku gildi haustið 2013 hafa enn náð lögbundnu takmarki sínu. Ef lög sett af Alþingi virka ekki einu sinni, hvað virkar þá?” sagði Rakel

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, veitti viðurkenningarnar í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar­ráðherra.

Þá hafði stjórn FKA hvatt allar konur í íslensku atvinnulífi til að klæðast svörtu í dag, til stuðnings #metoo byltingunni. Ákallinu var vel tekið og klæddust bæði karlar og konur svörtu víðs vegar í dag auk þess sem svarti liturinn undirstrikaði sterka samstöðu gesta á hátíðinni. Í ræðu formanns FKA kom fram að félagið taki það hlutverk sitt alvarlega að fylgja eftir #metoo byltingunni með ýmsum aðgerðum.

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×