Erlent

Fjöldi bandarískra þingmanna í alvarlegu lestarslysi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá slysstað
Frá slysstað Vísir/AFP
Minnst einn er látinn eftir lestarslys í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum í dag eftir að lestin klessti á vörubíl. Fjöldi þingmanna Repúblikanaflokksins var í lestinni á leið sinni í vinnuferð, en samkvæmt CNN eru allir þingmenn og aðstandendur þeirra heilir á húfi. Meðal þeirra þingmanna sem voru í lestinni var Paul Ryan, forseti fulltrúadeildarinnar.

Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins staðfesti á blaðamannafundi síðdegis að minnst einn væri látinn.

„Forsetinn hefur fengið skýrslu um aðstæður í Virginíu og hann fær reglulega fréttir af stöðu mála,“ sagði Sanders.

„Það er einn staðfestur látinn og annar alvarlega slasaður. Enginn þingmaður eða starfsmenn þeirra er alvarlega slasaður.“

Þingmenn Repúblikana voru á leið í vinnuferð til Vestur-Viginíu sem átti að vara frá miðvikudegi til föstudags. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, átti að ávarpa hópinn seinna í dag og þá átti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að halda ræðu á morgun.

Einhverjir þeirra þingmanna sem voru um borð hafa hlotið læknisþjálfun og gátu hjálpað til á slysstað. Talið er að þeir slösuðu hafi verið um borð í vörubílnum, en ekki lestinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×