Erlent

Sá sem gaf út eldflaugaviðvörunina á Hawaii hélt að árás væri yfirvofandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikil ringulreið ríkti á Hawaii þann 13. janúar.
Mikil ringulreið ríkti á Hawaii þann 13. janúar. Vísir/AFP
Starfsmaðurinn sem sendi út eldflaugaviðvörun til þeirra sem staddir voru á Hawaii fyrir nokkrum vikum hélt að árás væri yfirvofandi. Hann hefur verið fluttur á milli starfa hjá Almannavörnum Hawaii.

Töluverð skelfing greip um sig þegar viðvörun um yfirvofandi eldflaugaárás var send í fjölmörg símtæki og eftir öðrum leiðum til íbúa Hawaii og annarra sem þar voru staddir þann 13. janúar síðastliðinn.

Alls tók það yfirvöld 38 mínútur að senda út opinber skilaboð þess efnis að árás væri ekki yfirvofandi.

Washington Post greinir fráþví að bráðabirgðarannsókn á atvikinu hafi leitt í ljós að starfsmaðurinn sem sendi út viðvörunina hafi misskilið skilaboð sem honum bárust á meðan á æfingu sem ekki var á dagskrá stóð.

Skilaboðin sem send voru á eyjaskeggja.Vísir/AFP

Misskilningur vegna skyndilegrar æfingar

Er atvikinu lýst sem svo að yfirmaður næturvaktarinnar hjá Almannavörnum Hawaii hafi ákveðið að prófa starfsmenn dagvaktarinnar sem voru að mæta til vinnu.

Yfirmaður dagvaktarinnar taldi hins vegar að æfingin væru ætluð starfsmönnum næturvaktarinnar og fylgdist því ekki með æfingunni.

Þegar yfirmaður næturvaktarinnar hringdi svo í þá starfsmenn sem tóku þátt í æfingunni var enginn til staðar til þess að hafa eftirlit með þeim.

Spilaði yfirmaðurinn hljóðrituð skilaboð frá herstjórn Bandaríkjahers í Kyrrahafi um að árás væri yfirvofandi. Tekið var fram í skilaboðunum að um æfingu væri að ræða en fyrir mistök virðist einnig hafa verið fram að ekki væri um æfingu að ræða.

Starfsmaðurinn sem sendi hina örlagaríku viðvörun virðist ekki hafa heyrt þann hluta skilaboðana sem tiltók að um æfingu væri að ræða. Hélt hann því að áras væri yfirvofandi og sendi út aðvörunina.

Starfar hann hjá Almannavörnum Hawaii en hefur verið færður til í starfi þar sem hann hefur ekki lengur aðgang að viðvörunarkerfum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×