Sport

Belichick brosti 33 sinnum á fjölmiðlafundi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Belichick var óvenju léttur á því í nótt.
Belichick var óvenju léttur á því í nótt. vísir/getty
Það þykir nánast vera forsíðufrétt er hann magnaði þjálfari New England Patriots, Bill Belichick, brosir. Einn blaðamaður ákvað að taka það á sig á fjölmiðlafundi fyrir Super Bowl í gær að telja hversu oft Belichick myndi brosa.

Þjálfarinn þolir ekki blaðamannafundi. Hann hreinlega hatar þá og vill bara þjálfa. Gæfi mikið fyrir að vera laus við öll samskipti við fjölmiðla. Í gær var „Super Bowl Opening Night“ þar sem honum bar skylda að ræða við fjölmiðla í klukkutíma. Svara sömu spurningunum hundrað sinnum. Líklega helvíti í huga Belichick.

Kallinn mætti aftur á móti ansi léttur til fundarins og ætlaði greinilega að tækla þetta verkefni á jákvæðninni. Það gerði hann með stæl því talið var að hann hefði brosað 33 sinnum á þessum klukkutíma. Já, það eru tíðindi.

Hann brosti að spurningu frá skautadrottningunni Nancy Kerrigan, hann brosti er hann var spurður út í hvað hann gerði í frístundum og líka er hann var spurður hver væri munurinn á þessum Super Bowl-leik og hinum sjö sem hann hefði farið í. Svarið var reyndar frábært: „Þessi leikur er í Minnesota“.

Super Bowl-leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport næsta sunnudagskvöld. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 23.30 en vegleg upphitun hefst í beinni klukkan 22.00.



NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×