Erlent

Enn eitt hrottafengið nauðgunarmál skekur Indland

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Indverskar konur hafa barist hatrammlega gegn nauðgunarmenningu í landinu.
Indverskar konur hafa barist hatrammlega gegn nauðgunarmenningu í landinu. Vísir/Getty
Átta ára stúlkubarni var nauðgað af frænda sínum í höfuðborg Indlands, Delhi, síðastliðinn sunnudag. Að sögn þarlendra miðla, og reifað er í frétt breska ríkisútvarpsins, er ástand stúlkunnar sagt alvarlegt og dvelur hún nú spítala þar sem gert var að sárum hennar.

Lögreglan handtók frænda stúlkunnar sem sagður er vera 28 gamall. Hann braut á stúlkunni á sunnudag en málið rataði í fjölmiðla í gær og hefur vakið mikla athygli. Indverskar konur hafa á síðustu árum barist hatrammlega gegn kynbundnu ofbeldi og eru orðnar langþreyttar á karllægri menningu landsins sem þær telja taka af kynferðisbrotum sem þessu af léttúð.

Upphafspunktur baráttunnar er oft sagður vera reiðin sem braust út í kjölfar hópnauðgunar og morðs í höfuðborginni árið 2012. Þá brugðust stjórnvöld við og þyngdu refsingar við nauðgunum og geta nauðgarar í dag hlotið dauðadóm fyrir allra grófustu afbrot.

Framkvæmdastýra kvenréttindasamtaka í Delhi spyr á Twitter-síðu sinni hvernig íbúar höfuðborgarinnar geti sofið vært þegar þeir vita að til þess að ungabarni hafi verið nauðgað í nærumhverfi þeirra. „Erum við orðin svona ónærgætin eða höfum við bara sætt okkur við þetta?“

Blaðamaður breska ríkisútvarpsins segir að þrátt fyrir að fregnir af nauðguninni hafi vakið óhug meðal Indverjar séu brot sem þessi þó ekki óalgeng á Indlandi. Þvert á móti fer þeim fjölgandi í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×