Erlent

Danska konungs­fjöl­skyldan við öllu búin vegna veikinda Hin­riks

Heimir Már Pétursson skrifar

Friðrik krónprins af Danmörku flaug í skyndi heim til Kaupmannahafnar frá Sól í Suður Kóreu í morgun, eftir að fréttir bárust af því að heilsu Hinriks prins föður hans hefði hrakað mikið. Hinrik greindist nýlega með æxli í vinstra lunga sem læknar segja góðkynja.

Hinrik prins eiginmaður Margrétar Þórhildar drottningar Danmerkur hætti öllum skyldustörfum í janúar 2016 og fór á eftirlaun. Hann tók þó þátt í móttöku drottningar á íslensku forsetahjónunum þegar þau komu í opinbera heimsókn til Danmerkur í lok janúar í fyrra.

Heilsu Hinriks hefur hrakað mikið á undanförnum árum en hann verður 84 ára í júní. Hann hefur gengist undir aðgerð á fæti og í september tilkynnti hirðin að hann þjáðist af elliglöpum. Í janúar á þessu ári var hann svo lagður inn á Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn til skoðunar sem leiddi í ljós að hann væri með æxli í vinstra lunga sem læknar sögðu vera góðkynja.

Friðrik krónprins fór því rólegur til Sól í Suður Kóreu til að vera viðstaddur opnunarathöfn ólympíuleikanna sem hófst klukkan ellefu í morgun. Snemma í morgun var hins vegar tilkynnt að krónprinsinn hefði haldið heim til Danmerkur í skyndi til að vera við hlið föður síns eftir að heilsu hans hrakaði mikið, þótt Höllin sé varkár í yfirlýsingum.

Hinrik var glæsilegur maður á sínum yngri árum en hann kvæntist Margréti Þórhildi árið 1967. Prinsinn hefur aftur á móti látið á sjá síðustu ár og í heimsókn forseta Íslands fyrir ári var hann studdur af aðstoðarmanni hvert sem hann fór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×