Innlent

Ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þegar lögreglumenn komu á vettvang hittu þeir konuna sem var í miklu uppnámi, að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms sem Landsréttur hefur staðfest.
Þegar lögreglumenn komu á vettvang hittu þeir konuna sem var í miklu uppnámi, að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms sem Landsréttur hefur staðfest. Vísir/GVA
Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi en hann er ákærður fyrir að hafa tekið fyrrverandi sambýliskonu sína kyrkingartaki og þrengt að öndunarvegi hennar þar til hún missti meðvitund aðfaranótt sunnudagsins 3. desember síðastliðins.

Maðurinn hefur setið nánast óslitið í gæsluvarhaldi síðan og verður í gæsluvarðhaldi til 28. febrúar næstkomandi. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.

Laust eftir klukkan fimm aðfaranótt 3. desember hafi lögreglu verið tilkynnt að mikil öskur bærust frá konu sem stödd væri fyrir utan hús í Reykjavík.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang hittu þeir konuna sem var í miklu uppnámi, að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms sem Landsréttur hefur staðfest. Sagði hún þeim að fyrrverandi sambýlismaður sinn hefði tekið hana kyrkingartaki þar til hún missti meðvitund. Maðurinn var handtekinn á vettvangi.

Skýrsla var tekin af konunni þá um nóttina og síðan aftur á lögreglustöð þremur dögum síðar. Lýsti hún atvikum þá með sama hætti, það er að maðurinn hafi tekið hana kyrkingartaki þar til hún missti meðvitun. Maðurinn hafi hins vegar neitað sök.

Í málinu liggur fyrir skýrsla Sebastian Kunz, réttarmeinafræðings, sem skoðaði konuna þann 4. desember. Í niðurlagi skýrslunnar segir meðal annars:

„Áverkar þolandans eru sambærilegir við beitingu kyrkingartaks með miklu afli, sem mögulega leiddi til meðvitunarleysis. Þar sem kyrking með höndum er margbrotin í eðli sínu, verður að flokka aflmikla kyrkingu með höndum eins og í þessu tilviki, sem a.m.k. mögulega lífshættulega.“

Eins og áður segir mun maðurinn sitja í gæsluvarðhaldi út þennan mánuð og málið á hendur honum verður þingfest í héraðsdómi á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×