Erlent

Berlusconi vill vísa 600.000 innflytjendum úr landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Glaumgosinn Silvio Berlusconi er enn með puttana í ítölskum stjórnmálum á gamalsaldri jafnvel þó að hann sé ekki kjörgengur.
Glaumgosinn Silvio Berlusconi er enn með puttana í ítölskum stjórnmálum á gamalsaldri jafnvel þó að hann sé ekki kjörgengur. Vísir/AFP
Um það bil 600.000 innflytjendum sem hafa komið ólöglega til Ítalíu verður vísað úr landi ef kosningabandalag mið- og hægriflokka  vinnur sigur í þingkosningum í byrjun mars. Þetta segir Silvio Berlusconi, formaður hægriflokksins Áfram Ítalía og fyrrverandi forsætisráðherra.

Í sjónvarpsviðtali líkti Berlusconi stöðu innflytjendamála á Ítalíu við „félagslega sprengju sem er við það að springa á Ítalíu“. Ummælin lét hann falla í kjölfar skotárásar þar sem hægriöfgamaður særði sex menn af afrískum uppruna í bænum Macerata á laugardag.

Kallaði Berslusconi árásina öryggisvandamál. Það sé forgangsmál að ná tökum á fjölda flóttamanna í landinu, að því er segir í frétt The Guardian.

Berlusconi, sem nú er 81 árs gamall, má ekki bjóða sig sjálfur fram eftir að hann hlaut dóm fyrir skattsvik. Vinni kosningabandalag flokks hans, Norðurbandalagsins og Bræðra Ítalíu sigur í kosningunum 4. mars gæti hann engu að síður farið með talsverð völd á bak við tjöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×