„Ólafur hefur í samstarfi við bandarískt teymi búið til „Bitcoin Code“ – kerfi sem tryggir öllum Íslendingum fjárhagslegt öryggi í framtíðinni,“ segir meðal annars í fréttinni. Þá kemur einnig fram að Bitcoin Code hafi nú þegar gert fjölda fólks að milljónamæringum.
Í samtali við Vísi segir Ólafur Jóhann að honum hafi verið bent á falsfréttina í vikunni. „Ég fékk ábendingar um þetta frá fjölda fólks á Íslandi sem höfðu rekið augun í fréttina. Þetta virðist vera að skjóta upp kollinum ansi víða en þetta hefur svo undið upp á sig síðustu daga,“ segir hann.

Ólafur segir að hann hafi reynt að stöðva frekari útbreiðslu en mikill hægagangur sé í þeim efnum hjá Facebook. „Það er búið að tilkynna þetta til Facebook og segja að þarna séu einhverjir svikahrappar á ferð. Facebook virðist hins vegar vera ansi lélegt í að bregðast við þessu enda stjórnlaus miðill þannig séð.“ Segist hann ætla að reyna að gera meira í þessu á mánudaginn.
„Aðallega hef ég áhyggjur af því að þessir óprúttnu aðilar nái að blekkja einhverja. Það er leiðinlegt fyrir mig að nafnið mitt tengist svona rugli en það er náttúrulega miklu verra ef einhver bítur á agnið,“ segir hann.

Ólafur segir að hann hafi aldrei keypt Bitcoin-rafmyntina. „Ég hef aldrei keypt Bitcoin. Ég er ekki í því að ráðleggja fólki hvað varðar svona lagað en mér myndi aldrei nokkurn tímann detta í hug að kaupa Bitcoin, ekki frekar en að kaupa tréspíra af einhverjum vafasömum sprúttsala,“ segir hann.
„Ég veit ekki hvort það sé eitthvað til í því en einhver sagði mér að það væri hægt að rekja þetta til einhverra Rússa,“ segir Ólafur að lokum.