Erlent

Maðurinn sem sendi Hawa­i­i­búum eld­flauga­við­vörunina hefur fengið líf­láts­hótanir

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsmaðurinn hefur nú verið látinn fara frá stofnuninni.
Starfsmaðurinn hefur nú verið látinn fara frá stofnuninni.
Starfsmaður bandarískra yfirvalda sem sendi íbúum Hawaii viðvörun um að eldflaug stefndi á eyjarnar um miðjan síðasta mánuð segir að hann hafi á þeim tíma verið sannfærður um að ekki hafi verið um æfingu að ræða.

Málið vakti mikla athygli enda héldu margir íbúa Hawaii í heilar 38 mínútur að endalokin væru nærri.

Maðurinn sem sendi Hawaii-búum viðvöruna mætti í nafnlaust viðtal hjá sjónvarpsstöðinni NBC í gærkvöldi þar sem hann sagðist hafa fengið líflátshótanir á síðustu vikum. „Ég gerði bara það sem mér hafði verið kennt að gera,“ sagði maðurinn.

Sjá einnig: Hawaii-búar grétu, afklæddust og upplýstu um framhjáhald þegar viðvörunin barst

Það var að morgni dags um miðjan síðasta mánuð sem yfirmenn almannavarnayfirvalda á eyjunum ákváðu að standa fyrir æfingu. Ruglingur varð hins vegar um hverjir ættu að taka þátt, en skömmu eftir klukkan átta að morgni fengu starfsmenn skilaboð í síma.

Rannsókn yfirvalda hefur leitt í ljós að í upphafi og við lok skilaboðanna var sérstaklega tekið fram: „æfing, æfing, æfing“. Í miðjum skilaboðunum var hins vegar tekið fram að „ekki [væri um] æfingu að ræða“. Starfsmaðurinn segist ekki hafa heyrt að orðið „æfing“ og þegar hann hafi gert sér grein fyrir mistökunum hafi hann helst viljað fela sig undir steini.

„Þetta var svakalega erfitt fyrir mig, mikið um tilfinningar,“ segir hann í samtali við NBC.

Hefur verið látinn fara

Fimm aðrir starfsmenn yfirvalda, sem tóku þátt í æfingunni, hafa sagst hafa heyrt að um æfingu væri að ræða og segir í niðurstöðum rannsóknar um málið að umræddur starfsmaður hafi áður mistekið flóðbylgju- og brunaviðvörunaræfingar yfirvalda sem raunverulega atburði. Starfsmaðurinn hefur nú verið látinn fara.

„Mér þykir mjög leitt, það sem gerðist. Mér líður mjög illa, en ég gerði bara það sem ég taldi rétt þá stundina,“ segir maðurinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×