Erlent

Olían úr íranska skipinu gæti hafa náð ströndum Japans

Atli Ísleifsson skrifar
Skipið Sanchi brann í nokkra daga áður en það sökk.
Skipið Sanchi brann í nokkra daga áður en það sökk. Vísir/AFP
Olía frá einu mesta olíuslysi síðustu áratuga gæti hafa náð að ströndum Japans. Þetta segir japanska strandgæslan en olíubrák sást í flæðarmáli eyjarinnar Amami-Oshima.

Nú er verið að kanna hvort olían sé úr íranska tankskipinu Sanchi sem sökk á Austur-Kínahafi í síðasta mánuði. Reuters greinir frá málinu.

Öll áhöfn skipsins, þrjátíu og þrír menn, er talin af, en skipið lenti í árekstri við annað skip og við það blossaði upp mikill eldur.

Skipið brann síðan í nokkra daga áður en það sökk, með 136 þúsund tonn af þunnfljótandi olíu innanborðs.

Eyjan Amami-Oshima er hluti af eyjaklasa þar sem einnig er að finna eyjuna frægu, Okinawa. Eyjaklasinn er mikil náttúruperla, frægur fyrir hreinar strendur og stór kóralrif. Því óttast menn mjög að mikið umhverfisslys geti verið í uppsiglingu.

Japanska umverfisráðuneytið hafði gefið það út í síðasta mánuði að lítil hætta væri á því að olían næði að ströndum Japans. 


Tengdar fréttir

Íranska skipið Sanchi lekur olíu í tonnavís

Íranska olíuflutningaskipið Sanchi, sem sökk í gær eftir að hafa staðið í ljósum logum á Austur-Kínahafi undanfarna viku, lekur nú olíu. Skipið var á leið til Kína með 136.000 tonn af hráolíu, alls um 960.000 tunnur, og er mengunin ekki sjáanleg á yfirborðinu að því er BBC greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×