Viðskipti innlent

Arion kaupir tíund í sjálfum sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Arion banki hf. hefur samþykkt að kaupa 9,5 prósent af hlutabréfum í bankanum af Kaupskilum ehf., dótturfélagi Kaupþings ehf.
Arion banki hf. hefur samþykkt að kaupa 9,5 prósent af hlutabréfum í bankanum af Kaupskilum ehf., dótturfélagi Kaupþings ehf. Vísir/Stefán
Arion banki hf. hefur samþykkt að kaupa 9,5 prósent af hlutabréfum í bankanum af Kaupskilum ehf., dótturfélagi Kaupþings ehf. Í tilkynningu segir að kaupin séu í takt við ákvörðun hluthafafundar Arion banka þann 12. febrúar, þar sem ákveðið var að taka upp í samþykktir bankans tímabundna heimild stjórnarinnar til að kaupa til baka hlutabréf útgefin af bankanum.

Í tilkynningu frá Arion segir að fyrirhugað sé að uppgjör fram fari þann 21. febrúar 2018. Tilboð Kaupskila til Arion banka er háð því skilyrði að uppgjör hafi átt sér stað á milli Kaupskila og íslenska ríkisins varðandi nýtingu Kaupskila á kauprétti 13 prósenta hlutar íslenska ríkisins í Arion banka.

Hafi framangreindu skilyrði ekki verið fullnægt á uppgjörsdegi, getur Kaupskil frestað uppgjörsdeginum um allt að tíu daga. Komi til þess að uppgjörsdeginum sé frestað hækkar kaupverð hinna seldu hluta í samræmi við skilmála samnings Kaupskila og íslenska ríkisins. Kaupréttur Kaupskila byggir á samningi við íslenska ríkið frá 3. september 2009.

Arion mun greiða 90.087 krónur á hlut og er það sama verð og Kaupskil greiðir íslenska ríkinu við nýtingu kaupréttarins. Í tilkynningunni segir einnig að heildarkaupverð sé rúmlega 17,1 milljarður króna og sú upphæði komi til frádráttar arðgreiðslu sem samþykkt var á hluthafafundinum 12. febrúar og getur að hámarki verið 25 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×