Innlent

Gæti farið hring um landið á tíu daga fresti

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Ásmundur Friðriksson
Ásmundur Friðriksson Fréttablaðið/Pjetur
Þær vegalengdir sem ökuþórinn Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, keyrði árið 2017 jafngilda því að Ásmundur hafi keyrt hringinn kringum landið á tíu daga fresti árið 2017, eða 35 sinnum.

Akstur Ásmundar jafngildir því einnig að hann hafi keyrt frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði og aftur til baka í hverri viku á umræddu ári. Höfn er sá þéttbýlisstaður í kjördæmi Ásmundar, Suðurkjördæmi, sem er lengst frá Reykjavík. Vegalengdin milli þessara staða er 456 kílómetrar og ferðin fram og til baka er því 912 kílómetrar.

Ásmundur segir kjördæmi sitt 700 kílómetra langt og að hann fái mjög margar beiðnir um að hitta fólk vítt og breitt um kjördæmið. Aðspurður segist hann fara til Hafnar í Hornafirði fjórum til átta sinnum á ári. Ekkert sérstakt eftirlit er haft með því af hálfu Alþingis að færslur í akstursbækur séu réttar.

„Þingmenn sem óska eftir að fá greitt fyrir akstur á eigin bifreiðum þurfa að skrá kílómetratölu í mæli, fyrir og eftir hvert erindi, og þeir þurfa að gera grein fyrir erindum eða tilefni hverrar ferðar. Skrifstofa Alþingis hefur ekki eftirlit með þessu að öðru leyti,“ segir Karl M. Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis, aðspurður um fyrirkomulag og eftirlit með greiðslum til alþingismanna fyrir akstur í tengslum við störf þeirra.

Alþingi endurgreiddi Ásmundi rúmar 4,6 milljónir vegna þessa aksturs á umræddu ári, eða að jafnaði um 385 þúsund á mánuði. Til samanburðar má nefna að útborguð laun meðalgrunnskólakennara eru í kringum 340 þúsund á mánuði samkvæmt upplýsingum frá Kennarasambandi Íslands. Um skattfrjálsar greiðslur er að ræða sem bætast við þingfararkaup Ásmundar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×