Fótbolti

Sextán ára Maradona lék sinn fyrsta landsleik fyrir nákvæmlega 41 ári síðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Armando Maradona með heimsbikarinn 1986.
Diego Armando Maradona með heimsbikarinn 1986. Vísir/Getty
Diego Armando Maradona afrekaði það sem marga fótboltamenn dreymir um en fáir fái að upplifa. Hann leiddi þjóð sína til heimsmeistaratitils og fékk síðan að taka við heimsbikarnum fyrir hönd þjóðar sinnar í leikslok.

Landsliðsævintýri Maradona hófst á þessum degi fyrir 41 ári síðan eða 27. febrúar 1977. Mardadona var þá aðeins sextán ára gamall og lék sinn fyrsta A-landsleik á móti Ungverjalandi.





Maradona var þó ekki valinn í HM-hóp Argentínumanna þegar þeir unnu heimsmeistaratitilinn á heimavelli sumarið 1978.

Maradona fór hinsvegar með á HM á Spáni 1982 þar sem hann var ítrekað sparkaður niður þar til að hann missti stjórn á sér og fékk rauða spjaldið í tapi á móti Brasilíu. Það var 23 sinnum brotið á Maradona í leik Argentínu og verðandi heimsmeisturum Ítala.

Hápunktur landsliðsferils hans var hinsvegar á HM í Mexíkó 1986 þegar hann öðrum fremur sá til þess að Argentínumenn fóru alla leið og unnu heimsmeistaratitilinn.

Það hefur oft verið talað um að tveir leikmenn hafi unnið heimsmeistaratitil í knattspyrnu karla nánast upp á eigin spýtur en það eru Brasilíumaðurinn Garrincha á HM í Síle 1962 og svo Maradona í Mexíkó 1986.

Maradona var með 5 mörk og 5 stoðsendingar í heimsmeistarakeppnini 1986 þar af bæðin mörkin á móti Englandi í átta liða úrslitunum (þar af mark með hendi guðs og besta mark aldarinnar) og bæði mörkin á móti Belgíu í undanúrslitunum. Mardona lagði síðan upp sigurmark Jorge Burruchaga í úrslitaleiknum.





Maradona fór líka í úrslitaleikinn á HM á Ítalíu 1990 en á allt öðrum forsendum. Þar tapaði liðið líka á móti Þýskalandi í úrslitaleiknum.

Maradona lék sinn síðasta leik á HM í Bandaríkjunum 1994 en hann féll þar á lyfjaprófi og var dæmdur í bann. Síðasti leikurinn var 2-1 sigurleikur á Nígeríu en síðasta landsliðsmarkið kom í 4-0 sigri á Grikklandi í leiknum á undan.



Diego Armando Maradona var alls í sautján ár í argentínska landsliðinu og skoraði 34 mörk í 91 landsleik.

Hann var í byrjunarliði Argentínu í 21 leik í röð á fjórum heimsmeistarakeppnum í röð frá 1982 til 1994. Hann var með 8 mörk og 8 stoðsendingar í þessum leikjum. Enginn hefur borið fyrirliðabandið oftar í úrslitakeppni HM en það gerði Maradona alls sextán sinnum.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×