Innlent

Icelandair fellir niður flugferðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Veður hefur raskað flugi um Keflavíkurflugvöll. Áfram er spáð stormi á morgun.
Veður hefur raskað flugi um Keflavíkurflugvöll. Áfram er spáð stormi á morgun. Vísir/Anton Brink
Tíu flugferðir Icelandair sem áætlaðar voru síðdegis og í kvöld hafa verið felld niður, þar á meðal til London og Kaupmannahafnar. Þá var nokkrum ferðum seinkað vegna veðurs.

Á vefsíðu Icelandair sem var uppfærð kl. 23:10 kemur fram að ferðir til og frá London, Denver, New York, Osló og Kaupmannahöfn hafi verið felldar niður. Vísar flugfélagið til seinkunar sem hafi orðið á fjölmörgum ferðum í leiðarkerfi þess til og frá Íslandi í dag. Ljóst sé að þetta muni einnig hafa áhrif á flug út úr Keflavík mánudagsmorguninn 26. febrúar. 

Þá hefur ferðum frá N-Ameríku, Evrópu og Bretlandi til Keflavíkur verið seinkað í kvöld. Farþegar á ferðalagi frá N-Ameríku til Evrópu eru beðnir um að fylgjast með tölvupósthólfum sínum.

Mikill vindur setti strik í reikninginn á Keflavíkurflugvelli í dag. Farþegar komust ekki út úr vélum sem lentu á flugvellinum vegna þess að landgöngubrýr voru teknar úr notkun af öryggisástæðum.

Á vefsíðu Wow air kemur fram að flugferðum frá Keflavík síðdegis á morgun seinki. Veðurstofan spáir suðaustan hvassviðri eða stormi á suðvesturhorninu á morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×