Viðskipti innlent

Eykon kærir Orkustofnun fyrir sviptingu Drekaleyfis

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Eykons Energy.
Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Eykons Energy. Mynd/Stöð 2.

Orkustofnun afturkallaði í dag leyfi Eykons Energy til olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu. Eykon telur ákvörðunina lögbrot og hyggst kæra hana til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.Stöð 2/Sigurjón Ólason.

Þegar félögin CNOOC og Petoro drógu sig út úr olíuleitinni fyrir sex vikum áætlaði Orkustofnun að kostnaður við leitina væri kominn yfir fimm milljarða króna. Því er skiljanlegt að íslenska félagið Eykon vilji halda leyfinu. 



„Okkar svar er að við teljum þá ekki hafa sýnt fram á það að þeir hafi efnahagslega og tæknilega burði til þess að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru. Það eru miklar kröfur gerðar til þeirra sem fá og halda svona leyfi,“ sagði Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri. 



Framkvæmdastjóri Eykons, Gunnlaugur Jónsson, segir félagið ósátt við ákvörðun Orkustofnunar og ósammála forsendum hennar og að hún verði borin undir Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til að fá henni hnekkt.

Kínverska ríkisolíufélagið CNOOC og norska ríkisolíufélagið Petoro drógu sig út í janúar en Eykon vill halda leyfinu.Grafík/Stöð 2.

„Eykon telur ákvörðunina ekki reista á lögmætum grunni, þar sem ákvæða stjórnsýslulaga og meginreglna stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt. 



Ákvörðun Orkustofnunar um afturköllun leyfisins er afar íþyngjandi og að mati Eykons hefði Orkustofnun átt að beita vægari úrræðum áður en til afturköllunar kom,“ segir Gunnlaugur í yfirlýsingu fyrir hönd Eykons.



Orkumálastjóri telur ótímabært að afskrifa íslenskt olíuævintýri, eins og fram kom í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér:


Tengdar fréttir

Neitar að hætta olíuleitinni og segir málið lykta af pólitík

Olíuleit á Drekasvæðinu gæti verið lokið eftir að kínverska ríkisolíufélagið CNOOC og norska ríkisolíufélagið Petoro ákváðu að skila inn sérleyfi sínu. Íslenska félagið Eykon vill halda áfram þótt Orkustofnun telji forsendur brostnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×