Erlent

Rússar saka Bandaríkin um afskipti af kosningum

Kjartan Kjartansson skrifar
Pútín forseti á kosningafundi. Hann mun að líkindum sigra örugglega í forsetakosningunum síðar í þessum mánuði.
Pútín forseti á kosningafundi. Hann mun að líkindum sigra örugglega í forsetakosningunum síðar í þessum mánuði. Vísir/AFP
Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands segist hafa sannanir fyrir því að Bandaríkjastjórn sé að reyna að hafa áhrif á forsetakosningar sem fara fram í landinu í þessum mánuði. Leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur sakað Rússa um afskipti af forsetakosningunum vestanhafs árið 2016.

Reuters-fréttastofan segir að Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, hafi jafnframt sagt að Bandaríkin væru að reyna að valda usla í Rússlandi og að refsiaðgerðum Bandaríkjamanna væri ætlað að valda óstöðugleika þar.

Refsiaðgerðirnar voru samþykktar til að refsa Rússum fyrir afskipti af forsetakosningunum árið 2016. Rússneskir hakkarar eru sagðir hafa brotist inn í tölvupósta Demókrataflokksins og framboðs Hillary Clinton og lekið upplýsingum úr þeim til að koma höggi á Clinton.

Opinber rannsókn stendur yfir á hvort að forsetaframboð Donalds Trump hafi átt í samráði við Rússa. Þrettán Rússar hafa verið ákærðir í tengslum við rannsóknina, grunaðir um að hafa dælt út áróðri á samfélagsmiðlum til að reyna að ala á sundrungu á meðal bandarískra kjósenda.

Forsetakosningar fara fram í Rússlandi 18. mars. Fastlega er gert ráð fyrir afgerandi sigri Vladimírs Pútín, forseta.


Tengdar fréttir

Trump ræðst á alla nema Rússa

Í fjölda tísta sem sneru að mestu að Rússarannsókninni svokölluðu og innihéldu margar villur var þó einn aðili sem slapp við alla gagnrýni. Vladimir Putin, forseti Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×