Fyrir vikið hefur komið upp hávær umræða um hvort að það sé eitthvað vit í því að vera nota myndbandadómara nú þegar þeir gera hver mistökin á fætur öðrum.
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, mun þó ekki láta þessa byrjunarerfiðleika stoppa sig í því að innleiða myndbandadómarakerfið strax á heimsmeistaramótinu í ár.
Framundan er HM í Rússlandi í sumar og þar verða myndbandadómarar. VAR kerfið var kynnt fyrir þátttakendunum frá þjóðunum 32 í sérstakri HM-vinnustofu sem fór fram í Sotsjí í vikunni. Með því er ljóst að það er aðeins formsatriði að staðfesta veru VAR á HM 2018.
Meðal gesta á vinnustofunni var Heimir Hallgrímsson sem gæti lent í því í sumar að myndbandadómari verði örlagavaldur íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi.
Premier League clubs are not expected to introduce VAR next season, even if football's lawmakers approve them on Saturday.
Full story: https://t.co/4h2Kjq2wfhpic.twitter.com/b8XLot3ez1
— BBC Sport (@BBCSport) March 2, 2018
Carlos Queiroz, þjálfari íranska landsliðsins og fyrrum starfsmaður Manchester United, segir að myndbandakerfið sé táknmynd þess að heimurinn er að þróast og breytast. Tæknin er nú allstaðar og líka í fótobltanum.
„Það er augljóst að fótboltinn getur ekki farið inn í framtíðina með lokuð augun fyrir tækninýjungum og því sem er í gangi í kringum okkur,“ sagði Carlos Queiroz í viðtali við Dagbladet.
„VAR er bara eins og lítið barn ennþá en fótboltinn er búinn að vera til í meira en hundrað ár. VAR fæddist fyrir fimm árum. Þetta mun líta miklu betur út eftir tíu eða fimmtán ár,“ sagði Queiroz og bendir á hvernig myndbandatæknin hefur verið notuð í tennis.
Mesta gagnrýnin á VAR hefur verið í kringum upplýsingaflæðið og útskýringarnar og auðvitað þarf líka að stytta tímann sem það tekur að fara yfir ákveðin atriði. Það má búast við því að FIFA kynni kerfið betur í aðdraganda HM.