Erlent

Utanríkisráðherrann sendi Rússum tóninn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rex Tillerson í ræðupúlti utanríkisráðuneytisins.
Rex Tillerson í ræðupúlti utanríkisráðuneytisins. Skjáskot
Fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna varaði við „uggvænlegri hegðun og gjörðum,“ Rússa í kveðjuræðu sinni í gær. Fregnir af því að Bandaríkjaforseti hafi rekið Rex Tillerson komu eins og þruma úr heiðskýru lofti í gær en þeim hafði áður sinnast á opinberum vettvangi.

Þrátt fyrir það kom nokkuð á óvart að Tillerson hafi hvorki þakkað Donald Trump né hrósaði stefnumálum hans í ræðu sinni í gær. Slíkt er yfirleitt venjan í sambærilegum ræðum, þrátt fyrir að slettist upp á vinskapinn.

Í ræðu sinni í utanríkisráðuneytinu í gær reifði Tillerson margt af því sem hann telur hafa vel tekist í ráðherratíð sinni. Í því samhengi má nefna bætt samskipti við Kína og jákvæðar vendingar síðustu daga í kjarnorkumálum Norður-Kóreu.

Hann bætti þó við: „Mikið verk á eftir að vinna þegar kemur að viðbrögðum við uggvænlegri hegðun og gjörðum rússneskra stjórnvalda.“

Sjá einnig: Trump vísar til ágreinings við utanríkisráðherrann

Hann segir að Rússar verði að gera það upp við sig hvort gjörðir þeirra, sem hann tilgreindi þó ekki sérstaklega, væru til þess fallnar að bæta hag rússnesku þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. „Að halda áfram á sömu braut mun líklega leiða til frekari einangrunar Rússlands sem gagnast ekki neinum.“ Óhætt er þó að ætla að þar hafi hann verið að vísa til íhlutunar Rússa í kosningum, jafnt í Bandaríkjunum sem og í Evrópu.

Enn er margt á huldu varðandi brottrekstur Tillerson en Trump segir sjálfur að hann hafi viljað fríska upp á utanríkisþjónustuna fyrir komandi átök. Þeirra stærst eru komandi viðræður við stjórnvöld í Norður-Kóreu, viðræður sem Tillerson er talinn hafa verið andvígur.

Sögusagnirnar eru þó margar og þeirra bitastæðust lýtur einmitt að fyrrnefndum Rússum. Tillerson var sá eini í starfsliði Trumps sem sagði að Rússar bæru ábyrgð á dauða rússnesks gagnnjósnara í Bretlandi á dögunum.

Sú yfirlýsinga er sögð hafa lagst illa í Trump en starfslið hans hefur mátt búa við stanslausar ásakanir um samráð við Rússa í forsetakosningunum, sem svo leiddu til sigurs Trump í nóvember 2016.

Brot úr ræðu Tillerson í gær má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×