Erlent

Krafðist þess að hundurinn yrði settur í farangurshólfið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flugþjónninn bað eiganda hundsins að koma honum fyrir í farangurshólfinu fyrir ofan sætin.
Flugþjónninn bað eiganda hundsins að koma honum fyrir í farangurshólfinu fyrir ofan sætin. Vísir/Getty
Flugfélagið United Airlines segist bera fulla ábyrgð á því að hundur farþega hafi drepist í einni af vélum félagsins. Flugþjónn í vélinni er sagður hafa krafist þess að taskan sem hundurinn var geymdur í yrði sett í farangurshólfið fyrir ofan sæti farþegans, þar sem hundurinn svo kafnaði.

„Þetta er sorglegt atvik sem aldrei hafði átt að eiga sér stað,“ segir í tilkynningu félagsins.

Vitni um borð í vélinni, sem flaug frá Houston til New York á mánudaginn, segja að flugþjónninn hafi ítrekað beðið farþegann að koma töskunni sinni fyrir í hólfinu - þrátt fyrir mótmæli farþegans sem tjáði honum að hundurinn væri í henni. Flugþjónninn segist þó í tilkynningu flugfélagsins ekki hafa haft hugmynd um að franski bolabíturinn væri í töskunni.

Þegar á áfangastað var komið var hundurinn dauður og segja vitni að eigandi hans hafi hágrátið þegar hún opnaði loks farangurshólfið.

Þrátt fyrir að farangurshólf séu ekki fullkomlega loftþétt er súrefnisskortur þó talinn hafa dregið hundinn til dauða.

United Airlines segist ætla að hefja rannsókn á málinu. Samkvæmt reglum flugfélagsins eiga dýr að vera geymd í búrum sem komið er fyrir undir sætinu á meðan á flugi stendur. Framganga flugþjónsins á mánudag er því sögð hafa brotið í bága við þær reglur.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort flugþjónninn haldi starfi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×