Erlent

Tugir þúsunda mótmæltu fóstureyðingum á Írlandi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá mótmælunum í Dublin í dag.
Frá mótmælunum í Dublin í dag. Vísir/Getty
Í maí verður þjóðaratkvæðagreiðsla um umdeilda fóstureyðingalöggjöf á Írlandi, eins og staðan er í dag eru fóstureyðingar með öllu bannaðar nema í undantekningartilfellum eins og þegar líf móðurinnar er í bráðri hættu. Tugir þúsunda mótmæltu fóstureyðingum í Dublin í dag. Andstaða við fóstureyðingar er rótgróin á Írlandi og eru mótmælin hávær í ár vegna yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Löggjöfin á Írlandi er mjög ströng. Ekki er fallist á fóstureyðingar, þegar barnið hefur komið undir eftir nauðgun, sifjaspell, eða þegar barnið er alvarlega vanskapað. Kona sem fer í ólöglega fóstureyðingu á Írlandi getur átt yfir höfði sér 14 ára fangelsisvist. Þúsundir írskra kvenna fara í fóstureyðingu á hverju ári en þurfa þá að fara í hana utan heimalandsins.

Forsætisráðherrann Leo Varadkar hefur sagt að hann muni berjast fyrir breytingum á stjórnarskránni, þannig að bannið við fóstureyðingum verði afnumið úr stjórnarskrá.  Á fimmtudag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, samþykkti ríkisstjórnin svo að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta hitamál í maí. Stuðningur við afnám bannsins hefur farið vaxandi á meðal Íra síðustu árin. Meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf til þess að breyta stjórnarskrá Írlands.

Heilbrigðisráðherra landsins smíðar nú frumvarp sem myndi heimila konum að gangast undir fóstureyðingu fram að tólftu viku meðgöngu og í undantekningartilfellum eftir það.


Tengdar fréttir

Írar kjósa um fóstureyðingar í maí

Írar munu kjósa um hvort breyta skuli viðauka við stjórnarskrá Íra, sem settur var árið 1983 og tók þá af öll tvímæli um að fóstureyðingar væru bannaðar í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×