Fótbolti

Nýr leiktími í Meistaradeildinni á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos hefur lyft þessum bikar tvö ár í röð.
Sergio Ramos hefur lyft þessum bikar tvö ár í röð. Vísir/Getty
Aðdáendur Meistaradeildarinnar í fótbolta fá tækifæri til að sjá fleiri leiki í beinni útsendingu á næsta tímabili.

Knattspyrnusamband Evrópu hefur nú staðfest og gefið formlega út breytingar á Meistaradeildinni fyrir tímabilið 2018-19.

Nú er fjórða skiptingin leyfð í framlengingum og þá mega félögin einnig taka inn þrjá nýja leikmenn í leikmannahópa sína eftir riðlakeppnina.

Félögin mega ennfremur hafa 23 leikmenn á skýrslu í úrslitaleikjunum hvort sem þeir eru í Meistaradeildinni, Evrópudeildinni og UEFA Super bikarnum.





Ástæðan fyrir því að hægt verður að sjá fleiri leiki í beinni næsta vetur er að nú verða tveir leiktímar á hverju kvöldi svipað og hefur verið í Evrópudeildinni undanfarin tímabil.

Leikirnir í Meistaradeildinni hafa alltaf farið fram klukkan 20.45 (18.45 á Íslandi á meðan sumartími er í gangi en annars klukkan 19.45) á þriðju- og miðvikudögum en svo verður ekki lengur.

Nú verða tveir leiktímar á hverju kvöldi því leikirnir munu bæði fara fram klukkan 18.55 og klukkan 21.00. Tveir leikir á hvoru kvöldi munu nú hefjast fimm mínútur í sjö á evrópskum tíma en allir hinir leikirnir byrja klukkan átta að evrópskum tíma.

Stöð 2 Sport er nýbúið að framlengja samninga um sjónvarpsrétt Meistaradeildarinnar og heldur því áfram að sýna beint frá Meistaradeildinni á komandi tímabili.

Fyrst er þó æsispennandi endasprettur á Meistaradeildinni í ár en átta liða úrslitin hefjast í næstu viku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×