Erlent

Hvetur unga fólkið til að láta í sér heyra

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ungmenni voru hvött til að láta í sér heyra í ræðu sem Frans páfi hélt í dag.
Ungmenni voru hvött til að láta í sér heyra í ræðu sem Frans páfi hélt í dag. Vísir/afp
Frans páfi dró hvergi undan í ræðu sem hann flutti á Péturstorgi í dag. Þúsundir ungmenna voru mætt til að hlusta á páfann á Æskulýðsdegi Kaþólsku kirkjunnar. Frans gerði baráttu ungs fólks fyrir bættri byssulöggjöf í Bandaríkjunum að umfjöllunarefni sínu. Hann hvatti ungt fólk til frekari dáða: „Kæra unga fólk, þið hafið það sem þarf til að öskra.“ Reuters greinir frá.

„Það eru til margar leiðir til að þagga niður í ungu fólki og varpa á það skugga. Það eru til margar leiðir til að deyfa það, til að fá það til að hafa hljótt, til að spyrja einskis og véfengja ekkert. Það eru til leiðir til róa það, til að aftra ungu fólki frá þátttöku,“ segir Frans páfi.

Hann hvatti ungt fólk til að taka frekar til fyrirmyndar fólkið sem veifaði pálmagreinum til að fagna komu Jesús Krists í stað þess að líta upp til þeirra sem kröfðust þess að hann yrði krossfestur, fáeinum dögum síðar.

Frans páfi sagði að það væri hlutverk unga fólksins að hafa hátt, jafnvel þegar aðrir þegja.

Hvatningarorð Páfans eru sögð í kjölfar mótmælafundarins „March for our lives“ sem haldinn var í Washington í gær. Á fundinn mættu hundruð þúsunda ungs fólks sem krafðist strangari laga um byssueign í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×