Innlent

Námsmenn ósáttir við nýjar úthlutunarreglur LÍN

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fulltrúar námsmanna í stjórn LÍN lýsa yfir vonbrigðum með úthlutunarreglur lánasjóðsins fyrir árið 2018-2019.

Af reglunum að dæma telja þeir að mennta-og menningarmálaráðherra auk meirihluta stjórnar LÍN vilji ekki koma til móts við námsmenn.




Námsmenn hafi ekki hlotið þær kjarabætur sem aðrir hópar hafi fengið. Í yfirlýsingu frá fulltrúum námsmanna segir að ekki sé nóg gert fyrir námsmenn í nýsamþykktum úthlutunarreglum fyrir skólaárið. 




„Almennt frítekjumark LÍN breytist ekkert milli ára og ekki verður heldur gerð breyting á frítekjumarki þeirra sem koma úr námshléi,“ segir í yfirlýsingunni.



Þá er sagt frá því að húsnæðiskostnaður í nýjum úthlutunarreglum taki mið af leiguverði á Stúdentagörðum þrátt fyrir að almennt leiguverð sé mun hærra og að einungis 9% stúdenta hafi aðgang að þeim.

„Stúdentar eiga ekki að þurfa að sætta sig við að fá framfærslu sem er undir framfærsluþörf.“



Þrátt fyrir að margt hafi verið gagnrýnisvert við nýjar úthlutunarreglur taka fulltrúar námsmannahreyfinga í stjórn LÍN fram að því beri að fagna að stjórn LÍN hafi samþykkt að endurskoða framfærslugrunn fyrir námsmenn erlendis. 

Í yfirlýsingunni er það einnig gagnrýnt hvernig staðið var að breytingunum. Stjórn LÍN hafi fengið einungis klukkustund til þess að taka afstöðu til þeirra breytinga sem ráðherra vildi gera á tillögum stjórnar LÍN. Það hafi ekki verið góð vinnubrögð og síst til þess fallin að ýta undir upplýsta ákvörðun.


 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×