Logi segir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, hafa brotið lög þegar hann birti fjármálaáætlun eftir 1. apríl. Á síðu stjórnarráðsins segir „Fjármálaáætlun er sett fram til næstu fimm ára hið skemmsta og skal fjármála-og efnahagsráðherra leggja hana fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar fyrir 1. apríl ár hvert.“
Vinnubrögðin ekki til fyrirmyndar
Loga finnst ekki ásættanlegt að fjármálaáætlunin sé fengin í hendur þingmanna og fjölmiðla á sama tíma. Hann hafi viljað nýta páskafríið til þess að kynna sér innihald áætlunarinnar. „Ríkisstjórn sem er mynduð um bætt vinnubrögð og eflingu Alþingis hefði átt að sjá sóma sinn í því að skaffa okkur þessi gögn þannig að við kæmum vel undirbúin.“ Þetta sagði Logi í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar finnst Loga opinberast hægri stefna Sjálfstæðisflokksins. Hann tekur mið af ráðgerðum skattabreytingum þegar hann segir að verið sé að hygla hinum tekjuháu og fjármagnseigendum. Skattastefnan sem boðuð er í fjármálaáætlun sé sniðin að þessum hópi.
„Það er ekki verið að koma til móts við þá sem hafa það verst í samfélaginu; aldraða, öryrkja eða ungt barnafólk. Barnabætur beinlínis standa í stað og vaxtabætur sömuleiðis. Stuðningur til uppbyggingar leiguíbúða mun dragast saman á þessu fimm ára tímabili. Það er engin stórsókn í menntamálum þannig að þetta er ekki bjart.“
Ekkert vinstri grænt í fjármálaáætlun
Logi segist ekki geta greint sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í fjármálaáætluninni. „Það er verið að gefa eftir tekjur upp á 20, 30 milljarða á tímum þar sem við hefðum sannarlega þurft á því að halda að laga stöðu þeirra verst settu í samfélaginu.“
Þegar Logi er spurður hvort hann sjái lítið „Vinstri grænt“ í boðaðri skattastefnu í fjármálaáætlun svarar hann „ekkert“.
Þrátt fyrir að hugnast ekki áherslur í nýrri fjármálaáætlun segir Logi að það bjartasta í henni sé áætlun ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum og fyrstu þrjú árin í samgöngumálum.
Viðtalið við Loga má heyra hér að neðan.