Innlent

Sellófanefni utan um sælgæti í páskaeggjunum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Helgi Vilhjálmsson, er allur af vilja gerður.
Helgi Vilhjálmsson, er allur af vilja gerður. Vísir/Pjetur/Gunnar V. Andrésson
Helgi Vilhjálmsson, sælgætisframleiðandi sem er betur þekktur sem Helgi í Góu, segir að umbúðirnar um mismunandi sælgæti inni í páskaeggjunum séu ekki úr plasti heldur sellófani.

Sóley Kjerúlf Svansdóttir, var ein þeirra sem furðaði sig á óhóflegri plastnotkun sælgætisframleiðenda og skrifaði gagnrýna færslu á Facebooksíðu sína. Plastnotkunin sé á skjön við þá alþjóðlegu vitundarvakningu sem hefur orðið í umhverfismálum á undanförnum árum.

„Hver eru rökin fyrir því að pakka 10 súkkulaðirúsínum í plastpoka? Af hverju þarf ein lakkríslengja að vera í poka, af hverju þarf 5 svoleiðis? Af hverju mátti ekki spara framleiðslu, minnka kostnað, vernda umhverfið og sleppa þessu plasti?“ spyr Sóley í stöðuuppfærslu sinni sem blöskraði mjög umbúðirnar sem blöstu við henni þegar hún opnaði páskaeggið sitt. Hún segist hafa misst alla lyst og fundið fyrir reiði.

Helgi í Góu var inntur eftir viðbrögðum í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í dag. Hann sagði að umbúðirnar væru ekki úr plasti heldur sellófanefni. Aðspurður sagðist hann þó ekki vita hvort sellófanefni væri umhverfisvænna en plastið og hugðist komast að hinu rétta þegar í stað.

Helgi segir að hér áður fyrr hafi sælgætið verið í einni hrúgu inni í eggjunum og þá hafi fólk kvartað yfir því. „Við erum alltaf að reyna að þjóna fólkinu,“ segir Helgi.

Sjálfur segist Helgi vera á móti plasti og að hann sjái fyrir sér að endurskoða umbúðirnar. „Það er sjálfsagt að reyna að fá efni sem eyðist upp, ég er alveg sammála því,” segir Helgi.

Hér að neðan er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×