Íslandsmeistarar Valsmanna eru komnir í sumarfrí eftir vandræðalegan skell á Ásvöllum í gærkvöldi.
Haukar tryggðu sér sæti í undanúrslitaeinvíginu með tíu marka sigri, 29-19, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 12-6.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Valsmenn kolfalla á prófinu í leik upp á líf eða dauða á Ásvöllum í vetur.
Haukar unnu nefnilega sjö marka sigur á Val, 28-21, í leik liðanna í átta liða úrslitum Coca Cola bikarsins.
Valsmenn hafa því mætt tvisvar á Ásvelli í vetur til að berjast fyrir lífi sínu en tapað þessum 120 mínútum með samtals sautján marka mun.
Íslandsmeistararnir unnu því ekki einn leik í úrslitakeppninni en Haukarnir fara áfram í undanúrslit þar sem þeir mæta ÍBV.
Valsliðið missti því bæði Íslandsmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn á Ásvöllunum í vetur.
Leikir Vals upp á líf eða dauða í vetur:
8 liða úrslit bikarsins
Fimmtudagur 8. febrúar 2018 Schenkerhöllin Haukar - Valur 28-21 (14-9)
8 liða úrslit Íslandsmótsins
Mánudagur 16. apríl 2018 Schenkerhöllin Haukar - Valur 29-19 (12-6)
Valsmenn -17 í tveimur leikjum upp á líf og dauða á Ásvöllum í vetur
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
