Íþróttadeild spáir Keflavík 12. sæti deildarinnar í sumar og þar með falli aftur niður í Inkasso-deildina. Keflavík hafnaði í öðru sæti í næst efstu deild á síðustu leiktíð á eftir Fylki en liðið var í toppbaráttunni allt mótið og leiddi það lengi vel. Suðurnesjamenn voru búnir að daðra við fallið í nokkur ár áður en liðið fór niður með miklum stæl árið 2015 en þá fékk það aðeins tíu stig og fékk á sig 61 mark.
Keflvíkingar hafa oftast staðið sig mjög vel sem nýliðar en síðast þegar að liðið kom upp árið 2004 hafnaði það í fimmta sæti og varð bikarmeistari. Þegar að það kom upp árið 1993 endaði Keflavík í 3. sæti og komst í bikarúrslitaleik. Keflavík hefur alltaf haldið sér í deildinni sem nýliði og gert mjög vel í bikar.
Þjálfari Keflavíkur er Guðlaugur Baldursson en hann tók við liðinu síðasta haust og kom því upp í fyrstu tilraun. Laugi, eins og hann er kallaður, var sigursæll aðstoðarþjálfari FH áður en hann flaug úr hreiðrinu þar en Guðlaugur þjálfaði fyrst ÍBV í efstu deild árið 2005. Þá var hann einnig þjálfari ÍR í 1. og 2. deild frá 2008-2011.
Svona munum við eftir Keflavík
Keflvíkingar voru í basli allt sumarið en vonuðust til þess að spyrna sér frá botninum í Víkinni í tólftu umferðinni 2015 þar sem tvö lið í vandræðum mættust.
Það er skemmst frá því að segja að Keflvíkingar sukku bara dýpra því þeir töpuðu, 7-1, og enduðu með því að falla.
Liðið og lykilmenn
![](https://www.visir.is/i/63D38D29C5EF315BBE8DB0668FC71CDE8F2ACA883C479C085CB3B5A190D0E84E_713x0.jpg)
Þrír sem Keflavík treystir á:
Marc McAusland: Skoski miðvörðurinn kom til Keflavíkur fyrir sumarið 2016 og hefur verið besti varnarmaður deildarinnar síðan þá. Hann var ekki bara einn besti varnarmaður Inkasso-deildarinnar í fyrra heldur einn allra besti leikmaðurinn. McAusland er mikill leiðtogi sem hefur gert til dæmis mikið fyrir hinn stórefnilega Ísak Óla Ólafsson sem spilaði við hlið hans í hjarta varnarinnar hjá Keflavík í fyrra. Það verður mikil ábyrgð á herðum Skotans í sumar.
Hólmar Örn Rúnarsson: Lengi lifir í gömlum og allt það. Það er alveg ástæða fyrir því að Keflavík fór ekki upp 2016 þegar að Hólmar var meiddur og að liðið fór upp þegar að hann var kominn aftur úr meiðslum á síðustu leiktíð. Liðið var allt annað með hann innanborðs enda úrvals leikmaður með mikið keppnisskap og Keflavíkurhjarta úr gulli. Hólmar verður vissulega 37 ára í ár en þetta er algjör lykilmaður á miðjunni hjá Suðurnesjamönnum.
Jeppe Hansen: Ef Keflavíkurliðið ætlar að halda sér uppi verður danski jeppinn að skora eins og árið sé 2014 og 2015. Jeppe kom með miklum fítónskrafti inn í Pepsi-deildina það árið og skoraði sex mörk í níu leikjum. Hann skoraði svo átta mörk árið eftir en náði sér ekki á strik 2016. Hann fann markaskóna aftur fyrir síðustu leiktíð og skoraði fimmtán mörk í Inkasso-deildinni en það er stór munur á deildunum.
Markaðurinn
![](https://www.visir.is/i/E0FB1C750140CFCF40263BF391F423F435AAB59E6122EBD58540192494BC08D7_713x0.jpg)
Búist var við að Keflvíkingar myndu styrkja sig enn frekar en Guðlaugi virðist hafa verið settur stóllinn fyrir dyrnar þegar kemur að leikmannakaupum. Það er vissulega Pepsi-deildar reynsla í mörgum leikmönnum í hópnum en gleymum því ekki að það eru leikmennirnir sem döðruðu við fallið í nokkur ár áður en að liðið féll. Þeir eru ekki orðnir þeim mun betri núna.
Markaðseinkunn: F
Hvað segir sérfræðingurinn?
„Keflavíkur hefur gælt við að spila 3-5-2 en hefur ekki alveg mannskapinn í það. Liðið hefur því farið í 4-3-3 eins og Laugi vill spila. Það hefur gengið svona upp og ofan í vetur enda með lykilmenn meidda,“ segir Indriði.
„Það verður mikilvægt fyrir Keflavík að byrja mótið vel. Sigurbergur Elísson og Lasse Riise eru ekki búnir að vera með í vetur og það hefur sést. Liðið er ekki það sama heldur með og án Hólmars.“
„Ísak og Mark, skotinn, mynda góða hafsentalínu og svo mun mæða mikið á framherjunum. Þetta er ungt lið en þó búið að spila mikið saman. Reynslan er lítil í Pepsi þannig að þetta verður erfitt fyrir Keflavík,“ segir Indriði Sigurðsson.
Spurt og svarað
![](https://www.visir.is/i/30889BA30F294073B56B98B295B2D1AC984B93BF4959EB0550FBC2AEF36354E7_713x0.jpg)
Spurningamerkin eru ... hvað ungu leikmennirnir gera í deild þeirra bestu. Geta þeir tekið skref upp á við? Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður U21 árs landsliðsins, getur verið mjög mistækur en hann þarf að fækka stórum mistökum. Þrátt fyrir nokkra öfluga pósta eru aðrir leikmenn með litla sem enga reynslu af deild þeirra bestu og breiddin er ekki mikil í hópnum. Deyfðin á markaðnum gæti orðið til þess að Keflavík kveðji Pepsi-deildina aftur í haust.
Binni bjartsýni og Siggi svartsýni
Binni: Ég veit ekki hvað fólk er að pæla með að spá okkur niður. Við höfum aldrei fallið sem nýliðar og erum með landsliðsmarkvörð sem á eftir að blómstra, besta varnarmann deildarinnar í Marc McAusland og hreinræktaðan markaskorara í Jeppe Hansen sem hefur sannað sig í efstu deild. Þá erum við með efnilegasta leikmann deildarinnar í Ísak Óla Ólafssyni, bróður Sindra.
Ég meina, gaurinn sagði bara takk, en nei takk, við Leeds. Ég veit ekki hvort B-deildarlið á Englandi séu að bjóða mörgum öðrum 2000 módelum frá Íslandi samning. Laugi er svo snillingur að þjálfa. Ég er alveg raunsær þó að ég sé bjartsýnn. Við höldum okkur uppi nokkuð þægilega og förum væntanlega í bikarúrslit eins og vanalega sem nýliðar.
Siggi: Þú ert eitthvað bilaður, Binni. Nýliðar sem gera ekkert á markaðnum falla. Við erum ekki að koma upp með ungan Hólmar Örn, Hallgrím Jónasson og Baldur Sig. Þessir strákar í dag eru ekki á sama leveli. Breiddin hjá okkur er lítil sem engin og ef eitthvað kemur fyrir McAusland eða Jeppann erum við dauðir og grafnir. Ég veit ekki hvort þú sást marga leiki í vetur en þetta hefur ekki litið vel út. Ég sé ekki að við getum með nokkru móti haldið okkur uppi. Ég vonast bara til að við föllum með meiri sæmd en síðast.