Erlent

Gekk 56 kílómetra eftir að GPS-tækið sendi hann í ógöngur

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill snjór er á svæðinu þar sem Cartwright týndist.
Mikill snjór er á svæðinu þar sem Cartwright týndist. Vísir/Getty
Bandarískur vörubílstjóri, sem týndist í fjóra daga í Oregon komst í leitirnar eftir að hann gekk 56 kílómetra til byggða. Mjög kalt er á svæðinu þar sem hann týndist og mikill snjór. Hinn 22 ára gamli Jacob Cartwright hlaut þó engin alvarleg meiðsli. Hann var að keyra vörubíl þegar hann sló rangt heimilisfang í GPS-tæki hans og keyrði hann því eftir röngum og lítið förnum vegi.

Þar festist bíll hans og þurfti hann að ganga aftur til byggða þar sem mjög lítið símasamband er á svæðinu og sími hans varð fljótt rafmagnslaus. Hann hóf göngu sína skömmu eftir miðnætti á miðvikudaginn, hvorki með mat né vatn, og staðnæmdist ekki fyrr en hann nálgaðist heimabæ sinn La Grande og fékk far heim til sín.

Eiginkona hans var á fundi með embættismönnum La Grande þar sem leitin að Cartwright var rædd í þaula. þegar hún kom heim til þeirra hjóna fann hún eiginmann sinn þar og fór með hann á sjúkrahús.

Samkvæmt AP fréttaveitunni var Cartwright spurður af hverju hann hefði ekki tekið kartöfluflögur sem voru í bíl hans með sér þegar hann gekk af stað. Hann svaraði á þá leið að hann vildi ekki skemma farm sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×