Skoðun

Messað yfir kórnum

Davíð Þorláksson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn kynnti kosningaloforð sín hinn 14. apríl. Fólkið er nýtt, en hugmyndirnar kunnuglegar; útþensla byggðar og fleiri bílamannvirki. Hins vegar vantar mál sem ætti alltaf að vera á stefnuskrá flokksins – skattalækkanir. Eina skattalækkunin sem var nefnd er afnám fasteignagjalda á eldri borgara. Það er sérstakt í ljósi þess að tekjulágir eldri borgarar fá afslátt af fasteignagjöldum. Gert er ráð fyrir að skatttekjur Reykjavíkurborgar verði 27% hærri í ár en þær voru fyrsta ár kjörtímabilsins. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 7%. Það væri því nægt svigrúm til skattalækkana ef borgin væri vel rekin.

Nýleg könnun Félagsvísindastofnunar sýnir mikinn mun á fylgi flokksins eftir kynjum, hverfum og aldri. Um 8% kvenna í Vesturbæ ætla að kjósa flokkinn á meðan 49% karla í Árbæ ætla að gera það. Um 33% fólks á aldrinum 45-59 ára ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en bara 21% fólks 30-44 ára. Í heildina ætla 27,4% að kjósa flokkinn. Það er aðeins hærra en þau 25,7% sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum, sem þó var versta útkoma í sögu hans.

Sóknartækifæri flokksins liggja því hjá ungu fólki og konum sem búa miðsvæðis. Flokkurinn hefur samt síðustu ár aðallega verið að tala til eldri karla í úthverfum. Eldri maðurinn í Árbæ er eflaust kattsáttur við afnám fasteignagjalda á sig. Unga konan í Vesturbænum er líklega ekki sannfærð. Borgarfulltrúum flokksins virðist hafa verið meira umhugað um að vinna næsta prófkjör en næstu kosningar. Vonandi bera nýir frambjóðendur gæfu til þess að breyta því.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×