Erlent

Sajid Javid nýr innanríkisráðherra Bretlands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sajid Javid er fyrsti innanríkisráðherrann sem kemur úr þjóðernislegum minnihlutahópi en hann er af pakistönsku bergi brotinn.
Sajid Javid er fyrsti innanríkisráðherrann sem kemur úr þjóðernislegum minnihlutahópi en hann er af pakistönsku bergi brotinn. vísir/getty
Sajid Javid er nýr innanríkisráðherra Bretlands. Hann tekur við embættinu í kjölfar þess að Amber Rudd sagði af sér embætti í gær vegna Windrush-málsins svokallaða. Hann er fyrsti innanríkisráðherrann sem kemur úr þjóðernislegum minnihlutahópi en hann er af pakistönsku bergi brotinn.

Windrush-málið snýr að kynslóð innflytjenda sem komu frá Jamaíku og fleiri eyjum í Karíbahafinu á 5. áratugnum og framkomu yfirvalda í þeirra garð.

Fólkið kom löglega til Bretlands og settist löglega að í landinu en réttur þeirra til að dvelja í Bretlandi hefur verið dreginn í efa. Þannig hefur fólki verið neitað um aðgang að læknisþjónustu, það hefur misst vinnuna og verið í haldi vegna þessa.

Javid segir að hann ætli að endurskoða innflytjendastefnuna og sjá til þess að hún verði sanngjörn og að komið verði fram við fólk af virðingu.  

Rudd sagði af sér þar sem hún hafði ekki greint breska þinginu rétt frá þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hafði sett sér varðandi það hversu mörgum innflytjendum ætti að vísa úr landi.

Þannig sagði Rudd þingmönnum í liðinni viku að innanríkisráðuneytið hefði ekki sérstök markmið þegar markmið varðandi það hversu mörgum ólöglegum innflytjendum ætti að vísa úr landi.

 

Í gær birti breska blaðið Guardian hins vegar minnisblað þar sem kom fram að Rudd hefði sett fram markmið um að vísa 10 prósentum fleiri innflytjenda úr landi á næstu árum.

Sagði Theresa May, forsætisráðherra, fyrr í dag að þetta væri ástæða afsagnar Rudd; hún hefði gefið þinginu rangar upplýsingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×