Innlent

Bensínsprengju kastað inn um glugga í Súðarvogi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Brennuvargurinn komst undan.
Brennuvargurinn komst undan. Vísir/ernir
Eldur kom upp í húsi við Súðarvog skömmu eftir miðnætti í nótt. Þegar lögregla kom á vettvang voru íbúar búnir að ráða niðurlögum eldsins en engu að síður urðu töluverðar skemmdir á húsinu. Lögreglan telur að eldurinn hafi kviknað eftir að einstaklingur grýtti „bensínsprengjum“ inn um glugga, sem og í húsið sjálft. Brennuvargurinn komst undan og er málið nú til rannsóknar.

Skömmu áður hafði lögreglan haft hendur í hár pars sem grunað er um húsbrot á Grettisgötu. Parið var handtekið á gistiheimili við götuna þar sem þau eru sögð hafa verið í óleyfi í leiguíbúð. Að sögn lögreglu mun þetta hafa verið ítrekað brot hjá parinu og var það flutt í fangageymslu þar sem parið hefur mátt verja nóttinni.

Þá réðst farþegi að leigubílstjóra við Austurbrún. Farþeginn er sagður hafa ógnað bílstjóranum með vopni og haft í hótunum við hann, er hann neitaði að greiða fargjaldið. „Árásaraðilinn sem var í mjög annarlegu ástandi var handtekinn skömmu síðar og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Hann er einnig grunaður um vörslu fíkniefna,“ segir í skeyti lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×