Erlent

Norður-kóreskir leynimorðingjar sagðir á hælum njósnara í Evrópu

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Stjórn Kims stundar umfangsmiklar njósnir og aflar gjaldeyris með ýmiskonar ólöglegri starfsemi á erlendri grundu
Stjórn Kims stundar umfangsmiklar njósnir og aflar gjaldeyris með ýmiskonar ólöglegri starfsemi á erlendri grundu
Leyniþjónusta Norður Kóreu er nú sögð leita ljósum logum að manni sem aðeins er þekktur sem herra Kang og er talinn vera hátt settur njósnari á þeirra vegum. Síðast sást til hans á hóteli í borginni Shenyang í Kína í febrúar. Hótelið er sagt vera miðstöð norður-kóreskra tölvuhakkara sem noti kínverskar nettengingar til að fela slóð sína.

Fjölmiðlar í Suður Kóreu segja að herra Kang hafi stýrt aðgerðum norður-kóreskra njósnara í Kína og Rússlandi og verið yfirmaður gagnnjósna. Þá hafi hann haft það hlutverk að kaupa kjarnorkuleyndarmál á svörtum markaði. Samkvæmt fréttunum var Kang með mikið magn erlends gjaldeyris meðferðis þegar hann hvarf. Auk þess er hann sagður hafa haft með sér litla prentvél sem geti falsað dollaraseðla með mikilli nákvæmni.

Það sem stjórnvöld í Norður Kóreu óttast mest er að Kang sæki um hæli í Evrópu, líklega Frakklandi eða Bretlandi, í skiptum fyrir viðkvæmar upplýsingar um störf sín fyrir Kim stjórnina. Hermt er að minnst tíu launmorðingjar hafi verið gerðir út af örkinni til að finna og drepa Kang áður en það er of seint.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×