Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvetur Donald Trump Bandaríkjaforseta til að standa ekki við hótanir sínar um að rifta kjarnorkusamningnum við Írani, en Trump hefur margsinnis viðrað þá hugmynd. Guterres segir að gerist það, skapist raunveruleg hætta á stríði.
Trump hefur gagnrýnt samninginn harðlega í langan tíma en hann gengur út á að Íranir draga úr kjarnorkuþróun sinni og viðskiptabanni á þá er aflétt í staðinn. Trump hefur fram til 12. maí næstkomandi til að ákveða hvort hann standi við hótanir sínar eða fari að ráðleggingum alþjóðasamfélagsins en nær öll helstu ríki heims leggjast gegn slíkum hugmyndum.
