Erlent

Úlfsdráp veldur úlfúð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér sést úlfurinn og bíllinn sem um ræðir.
Hér sést úlfurinn og bíllinn sem um ræðir. Skjáskot
Villtur úlfur var drepinn í vesturhluta Jótlands á dögunum. Úlfar eru sjaldgæf sjón í Danmörku og óttast dýraverndunarsinnar að drápið kunni að verða til þess að nýr úlfastofn nái ekki að skjóta rótum í landinu.

Dráp úlfsins, sem er meðal þeirra fáu sem sést hafa í Danmörku síðastliðin 200 ár, náðist á myndbandsupptöku. Upptakan hefur vakið töluverða reiði í Danmörku, sem og meðal dýraverndunarsinna um allan heim.

Myndbandið má sjá hér að neðan. Í því sést hvernig úlfynja er skotin til bana af byssumanni sem virðist sitja í kyrrstæðum bíl. Ekki er að sjá á myndefninu að dýrið hafi sýnt ógnandi tilburði.

Í samtali við Guardian segir Guillaume Chapro, aðstoðarprófessor við sænska landbúnaðarháskólann, að drápið sé með öllu ófyrirgefanlegt. Dýrið hafi ekki ögrað neinum heldur virðist atferli þess einkennast af varkárni og forvitni.

Danska lögreglan hefur ákært 66 ára heimamann vegna málsins en reynt verður að sækja hann til saka fyrir brot á veiðireglum. Hann neitar að hafa drepið úlfinn en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Bíll hans og skotvopn hafa verið gerð upptök meðan málið er til rannsóknar.

Villtir úlfar höfðu ekki sést af ráði í Danmörku frá árinu 1813 þangað til að fregnir fóru að berast af úlfahjörð í vesturhluta Jótlands í fyrra. Hjörðin er mjög lítil og segja sérfræðingar að eitt dráp, eins og það sem sjá má hér að neðan, geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir stofninn.

Talið er að úlfarnir hafi drepið nokkrar kindur í vetur en dönsk stjórnvöld hafa komið á fót styrktarsjóði fyrir bændur til að standa straum af kostnaði sem af því hlýst. Þá geta danskir bændur jafnframt fengið styrk til að reisa úlfheldar girðingar.

Rétt er að ítreka að myndbandið kann að vekja óhug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×