Erlent

Fundu klúra brandara í dagbók Önnu Frank

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Anna Frank fékk hina frægu dagbók sína í 13 ára afmælisgjöf.
Anna Frank fékk hina frægu dagbók sína í 13 ára afmælisgjöf. Safn Önnu Frank í Amsterdam
Nýleg ljósmyndatækni hefur afhjúpað tvær áður óþekktar blaðsíður úr dagbók Önnu Frank, sem meðal annars innihalda klúra brandara og vangaveltur hennar um kynlíf.

Anna Frank hélt úti dagbók meðan hún var í felum frá nasistum í seinna stríði. Bókin var gefin út eftir andlát hennar og hefur notið mikilla vinsælda áratugum saman.

Blaðsíðurnar tvær, sem nú hafa skotið upp kollinum, hafði hún falið með brúnum pappa - að því er virðist til að fela hin djörfu skrif sín frá foreldrum sínum.

Skrifin eru dagsett 28. september 1942, skömmu eftir að hin þrettán ára Anna fór í felur.

„Ég mun nota þessar blaðsíður til að skrifa niður „klúra“ brandara,“ skrifar Anna Frank - við hlið fjörurra skrýtla sem hún virðist hafa kunnað. Þá skrifar hún einnig töluvert um kynfræðslu og setur sig í spor kennara sem þarf að kenna einhverjum allt um samskipti kynjanna. Þá fjallar hún einnig um vændiskonur, sem hún hafði heyrt föður sinn minnast á.

 

Haft er eftir sérfræðingi hjá Önnu Frank-safninu í Amsterdam að skrif hennar um kynlíf séu líklega í líkingu við hugsanir flestra á hennar aldri um þessi mál.

„Hver sá sem les hin nýfundu skrif hennar mun eflaust glotta út í annað,“ er haft eftir sérfræðingnum á vef breska ríkisútvarpsins. Klúru brandararnir hennar séu þræleðlilegir meðal unglinga og séu því til marks um það að Anna Frank hafi eftir allt saman bara verið venjuleg stúlka.

Einn brandaranna, sem BBC vitnar til, er eftirfarandi:

Veistu af hverju þýsku Wehrmacht stúlkurnar eru í Hollandi? Til að vera dýnur fyrir hermennina.

Anna Frank faldi sig í fyrirtæki föður hennar árið 1942, mánuði eftir að hún fékk dagbókina í hendurnar á 13 ára afmælisdaginn sinn. Hún hélt sig í felum í um 2 ár áður en þýskir nasistar handtóku hana og fjölskyldu hennar. Hvernig nastistarnir fundu fjölskylduna, eftir að hafa verið svo lengi í felum, er enn á huldu.

Anna lést í útrýmingarbúðum árið 1945, sama ár og Seinni heimisstyrjöldinni lauk. Pabbi hennar, eini fjölskyldumeðlimurinn sem lifði stríðið af, gaf svo út dagbók hennar árið 1947.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×