Erlent

Minnisblað CIA afhjúpar grimmdarverk fyrrverandi einræðisherra Brasilíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ernesto Geisel sést hér við hlið Elísabetar II Englandsdrottningar við hátíðarkvöldverð í Buckingham-höll árið þegar hann var í opinberri heimsókn í Bretlandi ásamt konu sinni árið 1976.
Ernesto Geisel sést hér við hlið Elísabetar II Englandsdrottningar við hátíðarkvöldverð í Buckingham-höll árið þegar hann var í opinberri heimsókn í Bretlandi ásamt konu sinni árið 1976. vísir/getty
Ernesto Geisel, fyrrverandi einræðisherra Brasilíu, samþykkti sjálfur aftökur einstaklinga sem taldir voru andstæðingar hans að því er fram kemur í minnisblaði CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, sem gert var opinberað var í Brasilíu í gær. Aftökurnar fóru fram án dóms og laga.

Minnisblaðið hefur skapað mikla umræðu í Brasilíu um einhvern myrkasta kafla í sögu landsins en Geisel var talinn einn af „ljúfari“ einræðisherrum landsins á árunum 1964 til 1985 þegar einræðisherrar úr röðum hersins voru við völd. Geisel var einræðisherra á árunum 1974 til 1979. Hann lést árið 1996.

Það var fræðimaðurinn Matias Spektor sem uppgötvaði minnisblaðið við rannsóknir sínar en það var gert opinbert af bandarísksa utanríkisráðuneytinu árið 2015. Spektor lýsir minnisblaðinu sem ógeðfelldasta skjali sem hann hefur lesið á 20 ára ferli sínum en hann stundar rannsóknir á sviði á utanríksistefnu Brasilíu sem og samskiptum Brasilíu og Bandaríkjanna.

Nauðsynlegt að halda áfram aðgerðum sem væru utan ramma laganna



Það var stjórnandi CIA, William Colby, sem sendi Henry Kissinger, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, minnisblaðið þann 11. apríl árið 1974. Í því er rakinn fundur sem Geisel átti með þremur hershöfðingjum úr brasilíska hernum nokkrum dögum áður.

Á fundinum segir einn hershöfðinginn við Geisel að hann geti ekki litið framhjá andstæðingum stjórnar hans og hryðjuverkaógninni sem hann stendur frammi fyrir.

„Það er nauðsynlegt að halda áfram aðgerðum sem eru utan ramma laganna gegn hættulegum andstæðingum,“ er haft eftir hershöfðingjanum Milton Tavares de Souza í minnisblaðinu.

De Souza segir síðan Geisel að árið 1973 hafi 104 aftökur farið fram án dóms og laga gegn andstæðingum einræðisstjórnarinnar. Annar hershöfðingi segir að þessari stefnu verði að halda áfram en Geisel segir að hann vilji taka sér nokkra daga til þess að hugsa hvort svo skuli vera.

Skýrslan sanni að Geisel gaf grænt ljós á grimmdarverk



Nokkrum dögum síðar ákveður hann síðan að stefnunni varðandi aftökur án dóms og laga skuli framhaldið en að ítrustu varkárni skuli gætt að aðeins megi taka hættulega andstæðinga af lífi.

Árið 2014 kom út skýrsla brasilískrar sannleiksnefndar um tíma einræðisstjórnarinnar. Samkvæmt henni voru 191 teknir af lífi af stjórninni á árunum 1964 og 1985 og 210 hurfu sporlaust. Formaður sannleiksnefndarinnar lýsir skjalinu sem undraverðu og segir að herinn eigi að taka ábyrgð á þessum grimmdarverkum.

O Globo, eitt stærsta dagblað Brasilíu, fjallaði um minnisblaðið á forsíðu og sagði það sanna að Geisel hefði gefið grænt ljós á grimmdarverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×