Erlent

Þrír skotnir til bana í belgísku borginni Liege

Birgir Olgeirsson skrifar
Árásarmaðurinn sagður hafa hrópað Allahu Akbar áður en hann lét til skara skríða.
Árásarmaðurinn sagður hafa hrópað Allahu Akbar áður en hann lét til skara skríða. Vísir/EPA
Tveir lögregluþjónar og einn vegfarandi voru skotnir til bana í belgísku borginni Liege í morgun. Árásarmaðurinn tók konu í gíslingu og særði tvo aðra lögregluþjóna áður en hann greip til þess ráðs að skjóta sig til bana. Lítið er vitað um ástæðu árásarinnar að svo stöddu en heimildir fjölmiðla herma að lögreglumenn heyrðu manninn lofa Allah um leið og hann lét til skarar skríða og er málið rannsakað sem hryðjuverk. 

Þá segja belgískir miðlar að maðurinn hafi losnað úr fangelsi á mánudaginn var og að líkur séu taldar á því að hann hafi tekið öfgatrú í fangelsinu. Mikill viðbúnaður vegna hryðjuverkahættu hefur verið í Belgíu undanfarin ár eftir árásir í Brussel þar sem þrjátíu og tveir lágu í valnum. Þá komu árásarmennirnir í Parísarárásunum 2015 einnig flestir frá Belgíu.

Tveir lögreglumenn til viðbótar eru særðir eftir árásina. Talskona saksóknaraembættisins í Liege staðfestir við fjölmiðla að tveir lögreglumenn hafi verið drepnir í þessari árás og að árásarmaðurinn hafi verið stöðvaður, en ekki voru veittar frekari upplýsingar um árásarmanninn að svo stöddu. 

Ljósmyndir á samfélagsmiðlum sýndu vegfarendur reyna að leita skjóls þegar árásin átti sér stað í miðborg Liege. Heyra mátti skothvelli og sírenur í myndböndum sem voru birt á samfélagsmiðlum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×