Fótbolti

Olivier Giroud búinn að ná Zidane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud.
Olivier Giroud. Vísir/Getty
Olivier Giroud getur ekki hætt að skora með franska landsliðinu og hann var á skotskónum í sigri á Írum í vináttulandsleik í gærkvöldi.

Giroud hefur oftar en ekki þurft að dúsa mikið á bekknum með bæði Arsenal og Chelsea en hann er miðpunktur sóknarleiksins hjá franska landsliðsþjálfaranum Didier Deschamps.

Giroud kom Frökkum í 1-0 í þessum 2-0 sigri á Írum á Saint-Denis í gær og hefur þar með skorað 31 mark fyrir franska landsliðið.

Nú er svo komið að aðeins þeir David Trezeguet (34), Michel Platini (41) og Thierry Henry (51) hafa skorað fleiri mörk fyrir landslið Frakka.

Giroud jafnaði nefnilega markaskor Zinedine Zidane með markinu í gærkvöldi. Zidane skoraði 31 mark í 106 leikjum á sínum tíma en Giroud er kominn með 31 mark í 72 leikjum.







Thierry Henry er enn með 20 marka forskot á Giroud en haldi Chelsea-maðurinn áfram að raða inn mörkum er aldrei að vita hversu nálægt metinu hann kemst.

Olivier Giroud hefur nú skorað fjögur mörk í síðustu fimm landsleikjum sínum og alls tíu landsliðsmörk á undanförnum tveimur árum.

Giroud skoraði þrjú mörk á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum en tvö þeirra komi í sigrinum á Íslandi í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×