Fótbolti

Forseti Íslands í viðtali á Ítalíu og rifjaði þar upp ítalskan fótboltasöng frá 1982

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Forseti Íslands, Herra Guðni Th. Jóhannesson og Paolo Rossi með heimsmeistarabikarinn 1982.
Forseti Íslands, Herra Guðni Th. Jóhannesson og Paolo Rossi með heimsmeistarabikarinn 1982. Samsett/Getty
Forseti Íslands, Herra Guðni Th. Jóhannesson, var í viðtali hjá ítalska blaðinu La Gazzetta dello Sport í tilefni af HM í fótbolta í Rússlandi og þar sagði hann frá 36 ára gamalli upplifun sinni.

Guðni Th. var nefnilega staddur á Ítalíu sumarið 1982 þegar Ítalir urðu heimsmeistarar í fyrsta sinn eftir seinni heimsstyjöldina. Ítalir byrjuðu keppnina á Spáni illa en enduðu hana frábærlega með 3-1 sigri á Vestur Þýskalandi í úrslitaleiknum í Madríd.

Mörk ítalska liðsins í úrslitaleiknum skoruðu þeir Paolo Rossi, Marco Tardelli og Alessandro Altobelli.

Guðni rifjaði upp ítalskan fótboltasöng frá 1982 þar sem heimamenn sungu til markaskoraranna þriggja þessa ógleymanlegu sumardaga á Ítalíu. Þetta sumar var Guðni Th. fjórtán ára gamall.

Það má sjá Guðna Th. segja frá þessu hér fyrir neðan en ítalski blaðamaðurinn birti þetta á Twitter.





Ítalir verða ekki með á HM í Rússlandi þar sem þeir sátu eftir í umspilinu eftir tap á móti Svíþjóð. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1958 þar sem ítalir eru ekki með í úrslitakeppni HM.

Ítalir hafa fjórum sinnum orðið heimsmeistarar, fyrst 1934 og 1938, svo 1982 og síðast á HM í Þýskalandi 2006.

Nú er bara spurning hvort að orð Guðna auki við áhuga Ítala á íslenska landsliðinu og hvort að Ísland verði jafnvel uppáhaldsslið Ítala á heimsmeistaramótinu í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×