Sergio Romero, varamarkvörður Manchester United og argentínska landsliðsins, er frá vegna meiðsla og mun ekki spila með Argentínu á HM.
Þetta eru slæmar fréttir fyrir Argentínu en Romero byrjaði alla leikina í undankeppninni fyrir HM og var líklegur til að verða markvörður númer eitt í Rússlandi.
Hann meiddist á hné á æfingu í dag en opinber Twitter-síða argentínska landsliðsins staðfesti þetta nú seint í kvöld.
Það verður því ekki Romero sem mun standa vaktina í marki Argentínu gegn Íslandi í Moskvu þann 16. júní en valið stendur nú á milli Willy Caballero og Franco Armani.
Franco Armani leikur með River Plate í heimalandinu en Caballero er á mála hjá Chelsea þar sem hann hefur verið markvörður númer tvö á eftir Thibaut Courtois.
Markvörður Argentínu meiddist á æfingu og spilar ekki á HM
Anton Ingi Leifsson skrifar
