Erlent

Rússar styðja Kim í að halda kjarnavopnum sínum í bili

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þykir bæði snjall og harður í horn að taka
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þykir bæði snjall og harður í horn að taka Vísir/Getty
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hitti í dag Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Þetta er í fyrsta sinn sem svo hátt settur rússneskur ráðamaður hittir Kim.

Rússar hafa ekki verið áberandi í umræðunni um friðarferlið á Kóreuskaga en ásamt Kínverjum hafa þeir verið helsti bakhjarl Norður-Kóreu um árabil.



Margt bendir nú til þess að leiðtogafundur Kims og Trump Bandaríkjaforseta muni fara fram í Singapúr þann 12. júní eins og upphaflega stóð til. Fundinum var aflýst eftir að öryggismálaráðgjafi Trumps hótaði Kim lífláti og Norður-Kóreumenn tóku það óstinnt upp.



Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þingaði með sendinefnd frá Norður-Kóreu í New York í gærkvöld. Þá hefur forseti Suður-Kóreu verið í beinu sambandi við leiðtoga beggja ríkja til að hvetja til fundarins í Singapúr.



Rússar munu þó síður en svo gera Bandaríkjamönnum málið auðveldara með íhlutun sinni í ferlið. Bandarískir ráðamenn segja að Norður-Kórea verði að gefa kjarnorkuvopn sín upp á bátinn til að eiga von um að viðskiptaþvingunum verði aflétt.



Á fundi sínum með Kim undirstrikaði Lavrov að Rússar styddu þá afstöðu Norður-Kóreu að ekki kæmi til greina að afvopnast að fullu fyrr en byrjað væri að afnema viðskiptaþvinganir. Gagnkvæmt traust þyrfti að ríkja og því yrði ekki náð nema með því að taka afvopnunarferlið í skrefum samhliða því að Bandaríkin afléttu þvingunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×