„Ég var nokkð ryðgaður í henni. Ég þarf að fara að rifja hana upp,“ sagði Jón Daði léttur en hann var þá nýkominn úr viðtali við norskan blaðamann.
„Þetta er búið að vera mikið af viðtölum en það bjuggust allir við því og eru undirbúnir fyrir það. Það er mikil athygli á mótinu og okkur. Það er bara jákvæð umfjöllun.“
Jón Daði átti frábært tímabil hjá Reading og mætir í toppstandi til liðs við landsliðið.
„Mér líður mjög vel eftir gott tímabil hjá mér. Er í flottu formi og ekkert vesen. Ég held mér í formi núna og fer varlega með sjálfan mig.“
Jón Daði er heimakær og líður best heima hjá fjölskyldunni á Selfossi.
„Ég er búinn að vera heima hjá mömmu og fá góðan mömmumat í rólegheitum þar,“ segir Jón Daði en hann gaf af sér um síðustu helgi er hann áritaði myndir af sér fyrir krakkana á Selfossi í kjörbúð þar í bæ.
„Það var flott. Selfoss er æðislegt samfélag þar sem allir þekkja alla. Það er alltaf gott að keyra yfir Ölfusárbrúna og koma í andrúmsloftið á Selfossi. Það er ekkert betra en að vera á Selfossi. Heima er best.“
Jón Daði segir að það skipti sig máli að reyna að gefa af sér.
„Krakkarnir voru ánægðir að hitta mig og það sem gerir þennan árangur extra sætan er að maður er ákveðin fyrirmynd og gefur öllum ungum krökkum von. Það sem lætur mér líða hvað best er þegar ég get gefið af mér. Þessi árangur gefur líka ungum krökkum mikið upp á framtíðina að gera.“