Fótbolti

Lewandowski vill fara frá Bayern

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lewandowski fagnar marki í búningi Bayern.
Lewandowski fagnar marki í búningi Bayern. vísir/getty
Robert Lewandowski, framherji Bayern München, hefur sagt félaginu frá því að hann vilji nýja áskorun. Þetta kemur fram í máli umboðsmanns Pólverjans.

Í febrúar greindi Sky Sports frá því að Chelsea og Manchester United myndu berjast um pólska landsliðsmanninn en Real Madrid og PSG eru einnig sögð áhugasöm um framherjann öfluga.

Hinn 29 ára framherji Lewandowski er þó með samning við þýsku meistarana til 2019 en nýlega gekk hann í raðir umboðsmannsins, Pini Zahavi. Sá umboðsmaður er sagður lunkinn að koma félagsskiptum í gegn en hann sá um félagsskipti Neymar til PSG.

„Robert líður eins og að hann þurfi að breyta til og fá nýja áskorun á sínum ferli. Forráðamenn Bayern vita af þessu,” sagði Zahavi við Sport Bild í Þýskalandi.

Lewandowski gekk í raðir Bayern frá grönnunum í Borussia Dortmund 2014. Hann hefur skorað 151 mark í 195 leikjum sem er lygileg tölfræði. Hann hefur verið markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar tvö af síðustu þremur skiptum.

Karl-Heinz Rummenigge, framkvæmdarstjóri Bayern München, hefur engar áhyggjur af því að Lewandowski yfirgefi félagið og segir að hann sé með samning sem ber að virða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×