Innlent

Furða sig á seint framkomnu persónuverndarfrumvarpi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Alþingishúsið við Austurvöll.
Alþingishúsið við Austurvöll. Vísir/GVA
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar á þingfundi í gær. Að þessu sinni var það seint framkomið frumvarp til persónuverndarlaga sem var skotspónninn.

Frumvarpið var lagt fram á þinginu í fyrradag en með því er stefnt að innleiðingu á persónuverndarreglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins.

Reglugerðin tók gildi í flestum öðrum Evrópuríkjum þann 25. maí síðastliðinn.

Þar sem frumvarpið var lagt fram eftir 1. apríl þurfti að leita samþykkis þingsins til að taka það á dagskrá. Við afgreiðslu á afbrigðunum tóku stjórnarandstæðingar til máls.

„Hæstvirtum ráðherra getur ekki verið alvara með að ætla þinginu viku til að ljúka jafn viðamiklu máli og hér er um að ræða. Það er í raun með ólíkindum að eftir að það var ítrekað kallað eftir því að þetta mál kæmi fram tímanlega sé verið að mæla fyrir því viku fyrir þinglok,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.

„Nú gífuryrðin sem eru hér alltaf sett fram varðandi vinnulag eiga auðvitað ekki við nokkur rök að styðjast,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.

Þá benti Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, á að frumvarpið hefði verið í umsagnarferli í Samráðsgátt ríkisstjórnarinnar og hægt hefði verið að koma athugasemdum að þar.

Þorsteinn benti þá á að fyrst málið hefði legið nær tilbúið í Samráðsgáttinni hefði verið hægt að mæla mun fyrr fyrir því. Þingmönnum væri ætluð vika til að kynna sér málið frá grunni, kalla eftir athugasemdum og vinna úr málinu í nefnd.

„Ég hef aldrei séð jafnmikla fádæma vanvirðingu fyrir þinginu og í þessu máli,“ sagði hann.




Tengdar fréttir

Ný persónuverndarreglugerð vonandi innleidd fyrir þinglok

Dómsmálaráðherra segist nokkuð bjartsýnn á að Alþingi takist að afgreiða nýtt persónuverndarfrumvarp fyrir þinglok. Nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd gagnrýnir vinnubrögðin. Reglugerðin felur í sér viðamiklar breytingar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×