Fótbolti

Tapið gegn Norðmönnum gott teikn fyrir HM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Strákarnir svekktir í leikslok í gær
Strákarnir svekktir í leikslok í gær vísir/andri
Íslenska karlalandsliðið tapaði í gærkvöld sínum fyrsta leik á Laugardalsvelli síðan árið 2013 þegar liðið lá fyrir fyrrum læriföðurnum Lars Lagerbäck og hans mönnum í norska landsliðinu. Tap fyrir Norðmönnum er þó nokkuð jákvætt teikn fyrir framhaldið.

Fyrir tveimur árum síðan, nærri því upp á dag eða þann 1. júní 2016, var Ísland að búa sig undir sitt fyrsta stórmót. Liðið mætti Norðmönnum í fyrri af tveimur æfingaleikjum fyrir mótið, líkt og nú fyrir HM.

Skemmst frá að segja þá unnu Norðmenn þann leik 3-2. Sverrir Ingi Ingason og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu mörk Íslands í þeim leik.

Í gær tapaði Ísland eins og áður segir fyrir Norðmönnum og aftur var niðurstaðan þrjú mörk gegn tveimur.

Árið 2016 fór íslenska landsliðið frá þessu tapi á EM í Frakklandi, reyndar spilaði liðið seinni æfingaleikinn við Liechtenstein fyrst, og alþjóð veit hvernig fór um sjóferð þá, íslensku strákarnir stóðu sig frábærlega og heilluðu heimsbyggðina þegar þeir komust í 8-liða úrslit á mótinu.

Við syrgjum að vígið Laugardalsvöllur hafi fengið stórt skarð með þessu tapi í gær, en hjátrúafullir geta huggað sig við það að þetta tap hlýtur að þýða frábær árangur í Rússlandi, sagan segir okkur það.

Ísland spilar annan æfingaleik á Laugardalsvelli, gegn Gana á fimmtudaginn 7. júní, áður en liðið heldur út til Rússlands.


Tengdar fréttir

Frederik: Getur verið vitur eftir á

Frederik Schram, markvörður Íslands gegn Noregi í kvöld, sagðist sjá eftir því að hafa reynt að sóla Joshua King í öðru marki Noregs í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×