Fótbolti

Martinez brjálaður yfir „dýnumálinu“: Gæti ekki valið lokahópinn núna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Martinez á hliðarlínunni með Belgum.
Martinez á hliðarlínunni með Belgum. vísir/getty
Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Belgíu, neitar þeim fréttum að lokahópur Belga fyrir HM í Rússlandi hafi óvart lekið í fjölmiðla í gær þegar myndir af sérmerktum dýnum 23 leikmanna fóru í dreifingu.

Myndir af 23 rúmdýnum með nöfnum 23 leikmanna voru sýndar á belgísku sjónvarpsstöðinni VRT í gær og voru dýnurnar staðfesta hvaða fimm leikmenn úr 28 manna æfingahóp Belga fái ekki að fara á HM. Það er ekki óalgengt að leikmenn ferðist með sérhæfðar dýnur sem henta hverjum og einum.

Markvörðurinn Matz Seles, varnarmennirnir Christian Kabasele og Jordan Lukaku, miðjumaðurinn Leander Dendoncker og vængmaðurinn Adnan Januzaj eru þeir sem sitja eftir með sárt ennið samkvæmt þessum fréttum.

Martinez sat fyrir svörum fyrir vináttulandsleik Belga og Portúgal og sagði þessar fréttir ekki staðfesta eitt né nett í sambandi við lokahópinn.

„Sendum við leikmannalistann út? Nei. Það er enginn sannleikur á bak við þessar fréttir,“ sagði nokkuð reiður Martinez.

„Þetta eru svolítil vonbrigði. Þessar fréttir taka frá leiknum. Við erum ekki að tala um Portúgal eða framlag leikmannanna.“

„Ég gæti ekki sagt til um það í dag hvaða 23 verða í lokahópnum,“ sagði Roberto Martinez.

Margir telja Belga geta gert góða hluti í Rússlandi en þeir fóru í 8-liða úrslit á EM fyrir tveimur árum og eru í þriðja sæti á styrkleikalista FIFA. Belgar hefja leik á HM 18. júní gegn Panama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×