Grigory Rodchenkov, maðurinn sem varð heimsfrægur er hann uppljóstraði frá lyfjamisferli Rússa, segir að einn leikmaður Rússa á HM taki inn lyf sem eru ólögleg.
Rodchenkov stýrði lyfjaeftirlitsstofnun Rússlands á þessum tíma en um leið og hann uppljóstraði frá misferlinu flúði hann burt til Bandaríkjanna.
„Ég sá nöfnin sem eru að fara á HM og ég þekkti einn af þeim,” sagði Rodchenkov en í síðustu viku greindi FIFA frá því að þeir væru hættir að rannsaka málið vegna ófullnægjandi sönnunargagna.
Þrátt fyrir ummæli sín um einn leikmann Rússa segir Rodchenkov að enginn leikmaður á HM muni greinast með jákvætt úr lyfjaprófi því menn taki ekki inn efni á meðan móti stendur.
„Á meðan keppni stendur eru allir hreinir. Erfiðustu hlutirnir og verstu eru gerðir fyrir stórmót. Knattspyrnumenn á hæsta stigi eru með umboðsmenn og sérfræðinga sem halda þeim hreinum því lyfjamisferli mun eyðileggja feril þeirra.”

