Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, og flokkur hans Réttlætis-og þróunarflokkurinn, hefur lýst yfir sigri í þing- og forsetakosningunum sem fóru fram í dag. Kjörstaðir lokuðu klukkan fimm að staðartíma.
Helsti keppinautur hans, Muharrem Ince, frambjóðandi Lýðveldisflokksins, hefur aftur á móti ekki viðurkennt ósigur því enn hafa ekki öll atkvæði verið talin. Hann bindur vonir sínar við að Erdogan muni ekki ná yfir fimmtíu prósent atkvæða.
Þegar 95% atkvæða höfðu verið talin, sem sýndu að Erdogan hefði hlotið 53% talinna atkvæða, lýsti hann yfir sigri og ávarpaði tyrknesku þjóðina:
„Þjóðin hefur falið mér að gegna embætti forseta Tyrklands. Ég vona að enginn reyni að varpa skugga á úrslit kosninganna og skaða lýðræðið til að breiða yfir eigin ósigur.“
Ef þetta verður niðurstaðan mun Erdogan halda embætti sínu án þess að til komi önnur umferð til að skera úr á milli tveggja atkvæðamestu frambjóðendanna. Erdogan boðaði skyndilega til kosninga fyrr á árinu eftir víðtækar stjórnarskrárbreytingar sem færa næsta forseta Tyrklands mun meiri völd.
Enn er mikið ólguástand í Tyrklandi eftir misheppnaða valdaránstilraun gegn Erdogan árið 2016. Neyðarlög eru enn við lýði og meira en 50.000 manns dvelja í fangelsi eftir tilraunina. Þá hafa 100.000 opinberir starfsmenn verið reknir.
Þegar þessi frétt er skrifuð hafa 99 prósent atkvæða verið talin. Erdogan hefur 52,5% þeirra og Ince 31% þeirra, að því er fram kemur á vef Reuters.
Erdogan lýsir yfir sigri
Tengdar fréttir
Tyrkir ganga til kosninga á morgun: Næsti forseti tekur við valdameira embætti en áður
Ef enginn einn frambjóðandi fær yfir helming atkvæða verður kosið á milli tveggja efstu þann 8. júlí næstkomandi.
Erdogan áfram forseti samkvæmt fyrstu tölum
Recep Tayyip Erdogan er með nokkurt forskot á mótframbjóðanda sinn Muharrem Ince.
Brugðist við hnökrum í kosningunum í Tyrklandi
Myndbönd hafa birst sem virðast sýna fjölda fólks í sama kjörklefa.