Erlent

Brugðist við hnökrum í kosningunum í Tyrklandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Erdogan lýsti nýju forsetaræði í Tyrklandi sem mikilli framför þegar hann greiddi atkvæði í Istanbúl.
Erdogan lýsti nýju forsetaræði í Tyrklandi sem mikilli framför þegar hann greiddi atkvæði í Istanbúl. Vísir/AP
Formaður yfirkjörstjórnar Tyrklands segir að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana vegna kvartana um hnökra á framkvæmd forseta- og þingkosninganna sem fara fram í landinu í dag. Myndbönd hafa birst á samfélagsmiðlum sem virðast sýna fjölda fólks í sama kjörklefa. Erdogan forseti segir kjörsókn mikla.

Kosningarnar í dag eru þær fyrstu í Tyrklandi samkvæmt nýrri stjórnskipan sem Recep Erdogan forseti kom í gegn í fyrra. Samkvæmt henni var komið á forsetaræði þar sem forseti fer mun meiri völd en áður.

Kvartanir um hnökra og misferli í kosningunum hafa borist frá austur- og suðausturhluta landsins, að sögn Kemals Klicdaroglu, formanns aðalstjórnarandstöðuflokksins, að sögn AP-fréttastofunnar. Hvatti hann starfsmenn kjörstjórnar til að virða hlutleysi.

Evrópskir kosningaeftirlitsmenn hafa gagnrýnt tyrknesk stjórnvöld fyrir að banna tveimur eftirlitsmönnum að koma til landsins vegna meintrar „hlutdrægni“ gegn Tyrklandi.

Búist er við því að Erdogan vinni sigur í forsetakosningunum en óvíst er hvort að flokkur hans nái einnig meirihluta á þinginu. Erdogan fullyrti að meira en fimmtíu prósent kjósenda hefðu kosið þegar hann kaus í Istanbúl í dag.

Kjörstjórnir hafa þó ekkert gefið út um kjörsóknina enn sem komið er.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×